Ekki um lán að ræða

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, og sérlegur aðstoðarmaður hans leita …
Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, og sérlegur aðstoðarmaður hans leita í einni af fjölmörgum möppum Baugsmálsins. Árni Sæberg

Skýrslutökur í Baugsmálinu héldu áfram fyrir hádegi í dag og spurði settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, Lindu Jóhannsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs, m.a. út í aðkomu hennar að bókhaldi félagsins. Linda sagðist hafa verið yfir bókhaldinu og fjármálum á aðalskrifstofu og annaðist að bóka daglegar færslur. Hún sagði næsta yfirmann sinn hafa verið Tryggva Jónsson, þáverandi aðstoðarforstjóra Baugs, auk þess sem hún átti í beinum samskiptum við Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs.

Sigurður Tómas spurði út í einstakar færslur er varða meinta lánveitingu Baugs og sagðist Linda hafa bókað þær. Hún neitaði að um væri að ræða lán þrátt fyrir að færslurnar gæfu það til kynna, hins vegar hafi henni vantað frekari upplýsingar til að bóka færslurnar og hafi því útbúið færslurnar með þessum hætti til að stemma af bókhaldið.

Linda neitaði því að Jón Ásgeir hafi haft bein áhrif á hvernig hún færði bókhaldið og sagði hann ekki hafa komið að einstaka færslum. Aðspurð um hver hafi gefið fyrirmæli um að bóka tilteknar færslur sagðist Linda í flestum tilfellum ekki muna hver það hafi verið og hún hefði t.a.m. í einhverjum tilvikum tekið það upp hjá sjálfri sér.

Aðalmeðferð Baugsmálsins heldur áfram á morgun og verður þá tekin skýrsla af Jóhönnu Waagfjörð, sem tók við af Lindu sem fjármálastjóri, og Auðbjörg Friðgeirsdóttir, innri endurskoðandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert