Framsóknarmenn vilja stjórnarskrárákvæði um auðlindir landsins

Þjófafoss í Þjórsá, Hekla í baksýn.
Þjófafoss í Þjórsá, Hekla í baksýn. mbl.is/Gísli Sigurðsson

Í drögum að ályktun flokksþings Framsóknarflokksins sem hefst á morgun kemur fram að Framsóknarflokkurinn fagnar stofnun landssamtaka jarðeigenda og telur mikilvægt að ríkisstjórnin eigi samstarf við samtökin um vinnubrögð og málsmeðferð.

„Í þessi erfiðu mál var ekki farið til að vinna land af jarðareigendum, heldur til að skýra rétt jarðeigenda og almennings. Það er markmið þessarar vinnu að tryggja eignamörk jarða þannig að hvergi leiki vafi á. Framkvæmd laganna skal einungis vera í þeim anda sem að baki þeim býr, að skýra eignarétt á óbyggðum Íslands," að því er segir í drögunum.

Þar kemur jafnframt fram að auka eigi fjármagn til grunnrannsókna á auðlindum og náttúru landsins. Með því móti sé hægt að taka ákvarðanir um nýtingu og verndun á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga. Framsóknarmenn vilja breyta stjórnarskránni með því að í henni standi: „Auðlindir landsins eru sameign íslensku þjóðarinnar“. Með auðlindum er átt við nytjastofna á Íslandsmiðum, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netalaga og náttúruauðlindir í þjóðlendum.

Alþingi setji lög um auðlindasjóð. Auðlindagjald renni í auðlindasjóð og það skuli greitt af öllum auðlindum í eigu eða forsjá ríkisins. Er meginhlutverk sjóðsins uppbygging, nýsköpun og framfarir í landinu öllu.

Leitast verður við að styrkja enn frekari rannsóknir á djúpborun og rannsóknir efldar til að leita leiða til betri nýtingar jarðvarma.

Hvatt verði til notkunar á farartækjum sem nýta innlendar orkulindir. Hvatarnir eiga að tengja gjöld af stofnkostnaði, árlegri notkun og eldsneytisnotkun við losun 14 á koltvísýringi.

Rannsóknir efldar með því að leggja aukið fjármagn til rannsókna, þróunar og tilrauna á sviði vistvænna samgöngutækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert