Nýr þjónustusamningur gerður við Ríkisútvarpið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á stofnfundi Ríkisútvarpsins ohf.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á stofnfundi Ríkisútvarpsins ohf. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði á stofnfundi Ríkisútvarpsins ohf. í dag, að með breytingum á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins muni tækifæri opnast og nýr þjónustusamningur muni marka tímamót í íslenskri fjölmiðlasögu og í fyrsta skipti í 77 ára sögu útvarpsins verði hlutverk þess ítarlega skilgreint.

Ómar Benediktsson var kjörinn stjórnarformaður hlutafélagsins á stofnfundinum en kosið var í stjórn og varastjórn Ríkisútvarpsins ohf. á Alþingi nýlega.

Fram kom hjá Þorgerði Katrínu, að RÚV muni gera sérstakan samning við menntamálaráðuneytið um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Í samningnum verði nánar lýst tilgangi og hlutverki félagsins og þeim kröfum sem gerðar séu. Þar verði jafnframt tilgreint hið fjölþætta menningarlega, lýðræðislega og samfélagslega hlutverk sem Ríkisútvarpið eigi að hafa sem öflugur fjölmiðill í almannaþágu.

Ráðherra sagði, að í samningnum væri kveðið á um að Ríkisútvarpið eigi áfram að sinna því mikilvæga hlutverki, sem það hefi í íslensku samfélagi. Ríkisútvarpið muni áfram leggja rækt við íslenska tungu, sögu og menningu og það eigi að hafa frumkvæði að því að miðla íslenskri menningu, listum og menningararfi. Þá muni RÚV áfram flytja fréttir og fréttatengt efni af sanngirni og hlutlægni og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.

Lögð er áhersla á menningarhlutverk félagsins á samningstímanum bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Í sjónvarpi verður það m.a. gert með því að sýnt verður meira af íslensku efni á kjörtíma. Mun hlutfall íslensks efnis milli kl. 19 og 23 vera 65% við lok samningstímans, sem verður 50% aukning frá árinu 2005. Þá mun RÚV verða vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð og styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Einnig er lögð áhersla á sjónvarpsefni á Norðurlandamálunum.

RÚV verður einnig gert að hafa frumkvæði að því að sýna og kynna þætti og kvikmyndir frá öðrum ríkjum Evrópu og heimshlutum sem lítið hafa verið kynntar hér á landi. Í hljóðvarpi mun RÚV m.a. fjalla um og útvarpa frá menningarviðburðum og kynna og flytja íslenska tónlist.

Þá er lögð áhersla á að texta sjónvarpsefni og á fjöldi textaðra klukkustunda að aukast að lágmarki um 100% á frá upphafi samningstímans. Miðað er við að öll forunnin innlend dagskrá verði textuð í lok samningsins. Með þessu sé reynt að veita bæði fötluðum og þeim sem ekki hafa íslensku að móðurmáli betri almannaþjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert