9 ára stúlkur staðnar að búðarhnupli

Tvær níu ára stúlkur voru staðnar að hnupli í matvöruverslun á höfuðborgarsvæðinu og 18 ára piltur var tekinn fyrir sömu iðju á bensínstöð í austurborginni. Á annarri bensínstöð fór ökumaður á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið sem hann tók.

Veski var stolið frá konu í verslunarmiðstöðinni í Mjódd og í Kringlunni varð önnur kona fyrir þeirri sömu óskemmtilegu reynslu. Þá var peningum stolið frá hótelgesti í borginni.

Brotist var inn í þrjá bíla á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt en þeir voru staðsettir í Kópavogi, Árbæ og miðborginni. Radarvara var stolið úr einum og fartölvu úr öðrum en loftljóss var saknað úr þeim þriðja. Þá voru verkfæri tekin úr nýbyggingu í Breiðholti og lyftur og tröppur hurfu úr gámum í Kópavogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert