Uppnám í dómssal vegna tölvupósta

Talsvert uppnám varð í dómssalnum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, þegar Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, lagði fram gögn sem hann sagði að gætu bent til þess að vitnisburður Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, fyrir hádegi í dag, hefði ef til vill ekki verið fyllilega trúverðugur.

Sigurður Tómas spurði Sigurð Einarsson í morgun m.a. um stefnu, sem hann fékk vegna málaferla í Bandaríkjunum sem tengdust máli Jóni Geralds Sullenberger. Sigurður sagði þá að hann hefði að vísu fengið stefnuna en ákveðið að hunsa hana og ekkert gert með hana.

Eftir hádegið, þegar Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, mætti til skýrslutöku, óskaði Sigurður Tómas eftir því að Hreiðar Már viki úr salnum og framvísaði síðan tölvupóstum sem hann sagði hafa fundist í tölvu Kristínar Jóhannesdóttur og hafa farið á milli hennar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hreiðars Más. Bentu póstarnir til þess, að Sigurður hefði setið fund í New York um þessa stefnu ásamt Hreiðari Má og Judit Sullivan, lögmanni Baugs.

Bæði Arngrímur Ísberg, dómsformaður, og verjendur sakborninga, brugðust illa við þessu. Arngrímur velti því fyrir sér hvað þetta kæmi ákæruliðum við, en Sigurður Tómas sagði að málið snérist um trúverðugleika vitnisins Sigurðar Einarssonar.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sagði að um væri ræða „hreina hryðjuverkastarfsemi“, ætlaða til þess eins að reyna að vinna sigra í fjölmiðlastríði. Jakob R. Möller, lögmaður Tryggva Jónssonar, sagði að Sigurður Tómas hefði tryggt sér, að í fjölmiðlum í kvöld og á morgun yrði það aðalfyrirsögnin, að Sigurður Einarsson hefði verið sakaður um meinsæri.

Þessu mótmælti Siguður Tómas harðlega og sagðist aldrei hafa fullyrt að Sigurður Einarsson hefði sagt ósatt, einungis að fram væru komin gögn sem bentu til að framburður hans hefði ef til vill ekki verið fyllilega trúverðugur.

Hreiðar Már var síðan spurður um þennan fund, þegar hann kom aftur í réttarsalinn. Sagði hann hugsanlegt að þeir Sigurður hefðu setið fund með Sullivan, en hann kvaðst ekki muna það nákvæmlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert