SI segir iðnþing ekki málfund stjórnmálaflokka

Samtök iðnaðarins hafa sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um væntanlegt iðnþing og gagnrýni forsvarsmanna Frjálslynda flokksins á að engum úr þeirra röðum sé boðið sem álitsgjafa á þingið. Segja SI, að það sé mikill misskilningur að Iðnþing sé málfundur stjórnmálaflokkanna og því sé verið að sniðganga Frjálslynda flokkinn.

Tilkynning Samtaka iðnaðarins er eftirfarandi:

    Sigurjón Þórðarson þingmaður hefur farið mikinn á opinberum vettvangi vegna dagskrár Iðnþings þann 16. mars 2007. Það er mikill misskilningur að Iðnþing sé málfundur stjórnmálaflokkanna og því sé verið að sniðganga Frjálslynda flokkinn.

    Öllum þingmönnum hefur verið boðið að vera viðstaddir opna dagskrá Iðnþings fyrir allnokkru.

    Dagskrá Iðnþings hefur legið fyrir um langt skeið. Þar tala að venju formaður Samtaka iðnaðarins og iðnaðarráðherra. Í framhaldinu er viðamikil dagskrá með þremur aðalræðumönnum en auk þeirra koma fram 14 álitsgjafar. Allir sem taka þátt í dagskránni gera það samkvæmt persónulegu boði en ekki sem fulltrúar tilnefndir af flokkum, stofnunum eða fyrirtækjum.

    Frjálslyndi flokkurinn hefur því alls ekki verið skilinn útundan á Iðnþingi frekar en aðrir flokkar, stofnanir eða fyrirtæki. Samtökum iðnaðarins er fullkomlega frjálst að skipa sínum fundarhöldum eins og þau kjósa.

    Rétt er að geta þess að þegar Samtök iðnaðarins hafa boðið stjórnmálaflokkunum að taka þátt í fundum sínum, t.d. Framtíðin er í okkar höndum í janúar 2006 og á Sprotaþingi í janúar 2007 hefur Frjálslyndi flokkurinn fengið slík boð og þegið.

    Upphlaup Frjálslynda flokksins er því með öllu tilefnislaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert