„Sorglegra en orð fá lýst“

Trillan var dregin til hafnar í morgun.
Trillan var dregin til hafnar í morgun. bb.is/Halldór

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir það hræðilega sjóslys sem átti sér stað í mynni Ísafjarðardjúps í gærkvöldi vera sorglegra en orð fá lýst.

„Tveir dugmiklir og hæfir ísfirskir sjómenn létust við störf sín. Við sem búum í sjávarplássunum og höfum alist upp við sjávarsíðuna, þekkjum þessa ógn og þann kvíða sem setti að okkur þegar veður voru hörð og bátar á sjó. Þegar sjóslys verður, er það sem þungt högg á allt samfélagið. Og við slíkar aðstæður verður samkenndin sterkust“, segir Einar meðal annars á heimasíðu sinni. „Hugur okkar er núna hjá aðstandendum sjómannanna sem létust við störf sín. Þeim eru sendar innilegar samúðarkveðjur.“

Segir Einar að á svona stundum rifjist upp sárir tímar þegar sjóslys hafi orðið. „Sem betur fer hefur margt áunnist í öryggismálum sjómanna. Betri bátar og skip, aukin vitneskja um veðurlag, reynsla og margs konar ráðstafanir í öryggismálum sjómanna hafa skilað árangri. En hið hræðilega slys núna, minnir okkur engu að síður á að starf sjómannsins við erfiðar aðstæður er ekki hættulaust. Okkur ber því skylda að hafa öryggismálin sem fyrr í forgangi. Það er okkur öllum ljóst og það skulum við því gera.“

Tveir menn fórust í slysinu. Björgunarsveitir voru kallaðar út um miðnætti í nótt eftir að trillan datt út af ratsjá. Björgunarskip frá Bolungarvík var komið á staðinn 20 mínútum eftir útkall og fann sjómennina að sögn Landhelgisgæslunnar. Fyrstu vísbendingar um slysið benda til þess að bátnum hafi hvolft þar sem veður var mjög slæmt og vont í sjóinn. Lögreglan og rannsóknarnefnd sjóslysa rannsaka nú málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert