Nauðsynlegt að fjölga borgarbúum

Auka á tekjur Reykjavíkurborgar meðal annars með því að fjölga íbúum en slík fjölgun er borginni nauðsynleg að mati borgarstjórnar. Laða á landsmenn og fyrirtæki að Reykjavík með lóðaframboði, auknum lífsgæðum og virkri fjölskyldustefnu. Má þar nefna uppbyggingu á deildum fyrir yngri börn í leikskólum borgarinnar og svokölluð frístundakort, en með þeim greiðir borgin hluta af æfinga- og þátttökugjaldi barna og unglinga í íþróttum og tómstundum.

Innleiðing frístundakortanna hófst í ár og lýkur að fullu á næstu þremur árum. Þetta kom fram á fréttamannafundi í ráðhúsinu í dag þar sem frumvarp að þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál borgarinnar árin 2008-2010 var kynnt.

Í áætluninni kemur fram að ná verði niður launakostnaði og gæta aðhalds í starfsmannahaldi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri sagði að það yrði að hluta gert með því að greiða niður lífeyrisskuldbindingar og nýta betur starfsmenn. Vilhjálmur sagði aðspurður að þetta þýddi ekki fjöldauppsagnir.

Fram kom í máli Vilhjálms að íbúum næstu bæjarfélaga hefði fjölgað mun meir en í Reykjavík, og nefndi hann þar Kópavog sem dæmi. Úr því yrði að bæta. Borgarstjórn gerir ráð fyrir því að íbúum fjölgi um 0,9% á næsta ári, 1,4% árið 2009 og 1,3% árið 2010. Það gerir um 1.700 íbúa milli 2007 og 2008, gróft áætlað.

Borgarstjóri sagði mikla eftirspurn eftir lóðum og því ætti ekki að endurtaka sig það sem gerðist árið 1985 í Grafarvogi, þegar fjöldi lóða undir einbýlishús gekk ekki út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert