Helmingur umfjöllunar um innflytjendur á síðasta ári var hlutlaus

Um helmingur frétta og umfjöllunar í helstu fjölmiðlum um innflytjendur og erlent verkafólk á síðasta ári var hlutlaus og var hvorki talin skapa jákvætt né neikvætt viðhorf í garð innflytjenda. Jákvæð umfjöllun nam 34% og neikvæð 17,8%.

Þetta er niðurstaða athugunar, sem Fjölmiðlavaktin gerði að beiðni félagsmálaráðherra en þar var umfjöllunin meðal annars greind eftir mánuðum og efnistökum. Um er að ræða 1323 fréttir og greinar um innflytjendur á Íslandi annars vegar og hins vegar um erlent vinnuafl. Tæplega 60% af heildarumfjöllun ársins 2006 varðaði innflytjendur, rúmlega 40% erlent launafólk og skörun var sáralítil.

Fram kemur í nýju fréttabréfi félagsmálaráðuneytisins, að neikvæð umræða hafi blossað upp í nóvember og þá hafi borið nokkuð á kynþáttafordómum. Í niðurstöðum greiningar á algengustu málaflokkum umræðunnar um innflytjendur sérstaklega hafi mest borið á neikvæðri umræðu á vettvangi stjórnmálanna (26,9%) en minnst í umræðunni um menntamál innflytjenda og erlendra starfsmanna (5,1%).

Jákvæð umræða sé langmest um menntamálin (72,8%) en síst í stjórnmálaumræðunni (19,9%).

Þegar umfjöllunin um erlent launafólk var greind sérstaklega kom í ljós að langstærstur hluti hennar var hlutlaus (68,8%) en neikvæð umræða var meiri en jákvæð svo að munar 5 prósentustigum (18,1% á móti 13,1%).

Fréttabréf félagsmálaráðuneytis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert