Gagnrýna að Háspenna fái lóð við Starhaga

mbl.is/Kristinn

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og VG lögðu á fundi borgarráðs í dag fram bókun þar sem því er fagnað, að Reykjavíkurborg hafi komist að samningi við Háspennu ehf. um að ekki verði af opnun spilasalar í Mjóddinni. Borgarfulltrúarnir átelja hins vegar harðlega að hluti umrædds samnings felist í að því að afhenda Háspennu afar verðmæta byggingarlóð við Starhaga.

Segja borgarfulltrúarnir, að samkvæmt skipulagi megi eingöngu byggja íbúðarhús á umræddri lóð. Niðurstaðan hafi á sér yfirbragð geðþóttaákvarðana.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks létu bóka, að spilasalur í hjarta Mjóddarinnar hefði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir eflingu svæðisins sem miðstöðvar fyrir verslun, þjónustu og margskonar fjölskyldustarfsemi. Þessi niðurstaða sé í fullu samræmi við óskir þúsunda Breiðhyltinga og annarra Reykvíkinga og taki ennfremur mið af samhljóða bókun borgarráðs um þetta efni.

„Það hvort fébætur til Háspennu, sem rekur spilakassa í umboði stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands, séu greiddar með peningum eða afhendingu lóðar, sem metin er á ákveðnu verði; sem er í samræmi við þær fébætur sem greiða þarf, skiptir ekki máli varðandi niðurstöðu málsins. Lóðina, sem er samkvæmt samþykktu deiliskipulagi, má eingöngu nýta til byggingar íbúðarhúsnæðis. Það er alls ekki einsdæmi að borgin hafi afhent lóðir til uppgjörs vegna skaðabóta, sem borginni hefur borið að inna af hendi," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert