Tryggingafélag þarf ekki að greiða líftryggingu

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að líftryggingafélagið sé ekki skylt að greiða út líftryggingu til erfingja manns, sem keypti slíka tryggingu og lést árið 2004. Í ljós kom að maðurinn var með kransæðasjúkdóm en lét þess ekki getið þegar hann sótti um trygginguna. Taldi Hæstiréttur, að líftryggingafélagið hefði hafnað umsókn mannsins um tryggingu hefðu réttar upplýsingar um heilsufar hans legið fyrir.

Aðalkrafa erfingjanna hljóðaði upp á 11,5 milljónir króna en varakrafa var um, að tryggingafélagið endurgreiddi iðgjöld, sem greidd voru af líftryggingu mannsins frá árinu 1993 til 2004, samtals 1,1 milljón króna. Hæstiréttur vísaði þessari kröfu frá dómi, og taldi að tryggingafélaginu hefði gefist nægilegt tilefni til að halda fram til frádráttar henni kostnaði, sem það kynni að hafa borið vegna vátryggingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert