Stefnt að því að selja Wilson Muuga í brotajárn

Takist að draga flutningaskipið Wilson Muuga af strandstað er hugmyndin sú að draga skipið að bryggju erlendis og selja skipið í brotajárn segir stjórnarformaður Nesskipa, sem á skipið. Andvirði skipflaksins verður síðan skipt á milli eigenda skipsins og ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við flutning þess og sölu í réttu hlutfalli við framlag hvors um sig til verksins.

Umhverfisráðherra fagnar niðurstöðunni í málinu og segir að það hafi ávallt verið hugmyndin að reyna draga skipið út sömu leið og það kom inn. Aðspurð segir hún að það sé ávallt einhver hætta á mengun þegar draga á skip af strandstað, en nú þegar sé búið að vinna mikla vinnu við að koma í veg fyrir tjón af völdum brennsluolíu skipsins.

Áætlaður kostnaður, um 40 milljónir kr., verður greiddur af eigendum skipsins og íslenska ríkinu. Hlutur ríkissjóðs í kostnaðinum verður 15 milljónir kr.

Stefnt er að því að draga skipið út á stórstraumsflóði 16.-18. maí nk. Ef veður eða aðrar ytri aðstæður hamla því að þetta verði hægt er stefnt að því að reyna aðgerðir aftur við fyrsta hentuga tækifæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert