Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir brot gegn blygðunarsemi konu með því að taka af henni mynd með GSM-síma, án hennar vitneskju, þar sem hún lá nakin í rúmi mannsins og fyrir að hafa á næstu dögum sýnt sjö körlum og einni konu myndina og aðra mynd, sem maðurinn sagði vera af konunni.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi neitað sök en þó viðurkennt að hafa tekið eina mynd af konunni og vini sínum saman með samþykki þeirra. Vitni báru hins vegar, að maðurinn hefði sýnt þeim myndir af konunni þótt óljóst væri hve myndirnar voru margar og hvað nákvæmlega var á þeim.

Dómurinn segir, að með framburði vitna þyki fram komin lögfull sönnun um að maðurinn hafi sýnt a.m.k. fimm körlum og einni stúlku mynd í síma sínum og að á þeirri mynd hafi mátt þekkja konuna. Þá hafa þessi vitni líka borið að maðurinn hafi sýnt þeim mynd af kynfærum konu þar sem vasaljós hafði verið sett upp í og maðurinn hafi sagt að þessi mynd væri af konunni. Með framburði vitna teljist þetta einnig sannað.

Að mati dómsins er óumdeilt að háttsemi ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi komnunnar en til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot á 209. grein almennra hegningarlaga, eins og ákært var fyrir, þurfi háttsemin að vera lostug af hans hálfu og veita honum einhverja kynferðislega fullnægju. Ekkert bendi til þess að svo hafi verið í þessu tilfelli. Var maðurinn því sýknaður af ákærunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert