Bíl ekið 56 sinnum um Hvalfjarðargöng án þess að veggjald væri greitt

Umferð við Hvalfjarðargöngin.
Umferð við Hvalfjarðargöngin.

Héraðsdómur Vesturlands hefur sýknað mann af kröfu Spalar um að hann greiði 112 þúsund krónur í veggjald um Hvalfjarðargöng en myndir náðust af bíl, sem skráður var eign mannsins, þar sem honum var ekið 56 sinnum um göngin án þess að greitt væri veggjald fyrir. Ekki þótti sannað, að eigandi bílsins hefði verið undir stýri.

Fram kom í málinu, að skráður eigandi bílsins hafði selt hann nokkru áður en látið undir höfuð leggjast að tilkynna eigendaskipti. Nýi eigandinn viðurkenndi, að hafa ekið bílnum nokkrum sinnum um göngin því tímabili sem kært var út af án þess að hafa greitt veggjald.

Maðurinn, sem stefnuna fékk, viðurkenndi hins vegar að hafa ekið öðrum bíl einu sinni gegn um göngin án þess að greiða veggjald og féllst á greiðsluskyldu vegna þess. Var hann dæmdur til að greiða Speli 2 þúsund krónur, þ.e. 1000 króna veggjald og 1000 króna álag. Spölur var hins vegar dæmdur til að greiða málskostnað mannsins, 200 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert