Geir: Ranghugmyndir að upptaka evru leysi öll vandamál

Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra mbl.is/ÞÖK

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á ársfundi Seðlabankans í dag, að sumir virtust halda að upptaka evru í stað íslensku krónunnar myndi leysa öll vandamál, jafnt hjá fyrirtækjum, heimilum sem opinberum aðilum.

„Hér er mikið af ranghugmyndum á ferð. Í fyrsta lagi er ljóst að það er fullkomlega óraunhæft að tala um upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu. Um þetta eru kunnáttumenn sammála og hafa bent á ýmis dæmi þess að ákvarðanir um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils sem heimamyntar skorti þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir hagstjórnina.

Spurningin um formlega upptöku evru í stað íslensku krónunnar er því spurning um hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Þeirri spurningu ætti flestum að vera auðvelt að svara eftir útkomu hinnar nýju skýrslu Evrópunefndar," sagði Geir.

Hann sagði að það lægi heldur ekki fyrir, að upptaka evrunnar leysi einhver efnahagsvandamál á Íslandi. Þvert á móti sé ljóst að ný vandamál kæmu í stað þeirra gömlu. Þá hefði nokkuð borið á þeim misskilningi að uppgjör á ársreikningum einhverra fyrirtækja í evrum boði endalok íslensku krónunnar. Því færi fjarri.

„Ég beitti mér fyrir því sem fjármálaráðherra árið 2001 að lögfest var heimild til þess að fyrirtæki gætu leitað eftir því að færa ársreikninga sína í öðrum gjaldmiðli en krónum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með því var ekki verið að boða endalok krónunnar heldur einungis að koma til móts við eðlilegar og sanngjarnar óskir fyrirtækja um að mæta þeim breyttu aðstæðum sem fylgdu vaxandi viðskiptum þeirra í útlöndum. Íslensk fyrirtæki geta í dag gert sína ársreikninga upp í hvaða mynt sem er uppfylli þau sett skilyrði. Flest sem það gera hafa valið Bandaríkjadollar," sagði Geir.

Hann sagði að málið snérist um að finna hagkvæmasta fyrirkomulag fyrir gjaldmiðil, sem varðveiti efnahagspólitískt sjálfstæði þjóðarinnar og gerir Íslendingum kleift að kljást við hagsveiflur hér á landi.

„Engin betri skipan er á boðstólum í dag en sú að viðhalda íslensku krónunni, hvað sem síðar kann að verða. Seðlabankanum er með verðbólgumarkmiði sínu ætlað að standa vörð um verðgildi hennar. Evran gerir engin kraftaverk fyrir hagstjórnina. Það sem skiptir meginmáli er að hagstjórnin sjálf sé skynsamleg," sagði Geir.

Ræða Geirs H. Haarde

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert