Kostnaður Sólar í Straumi um 3,5 milljón króna - Alcan gefur ekki upp

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík mbl.is/Árni Sæberg

Pétur Óskarsson, talsmaður Sólar í Straumi, segir að kostnaður við kosningabaráttu samtakanna vegna íbúakosningar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík sé um 3,5 milljón króna. Fjárhagsáætlun samtakanna er tilbúin en ekki er um endanlega niðurstöðu að ræða þó fátt gefi til kynna að kostnaður eigi eftir að aukast.

Helsti kostnaður samtakanna var í prentun bæklinga og við rekstur kosningaskrifstofu. Aðspurður hvernig samtökin hafi aflað fjár segir Pétur að einstaklingar í Hafnarfirði hafi styrkt samtökin með fjármunum og einnig hafi hafnfirsk fyrirtæki látið fé af hendi rakna. Nöfn þeirra fyrirtækja verða ekki gefin upp.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að kostnaður fyrirtækisins vegna kosningabaráttunnar verði ekki gefin upp. Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að kostnaður Alcan vegna undirbúnings fyrirhugaðrar stækkunar álversins væri orðinn 800 til 900 milljónir króna en til þess kostnaðar hefur verið stofnað á undanförnum sjö árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert