Langflestir vilja íslensku mjólkina

Langflestir vilja íslensku mjólkina.
Langflestir vilja íslensku mjólkina. mbl.is/Þorkell
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
Neytendur sýna íslenskri drykkjarmjólk alveg gríðarlegan stuðning og virðast ekki sjá fyrir sér að fara að drekka mjólk sem hefur þvælst yfir hafið hvort sem hún kæmi að austan eða vestan,“ segir Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, um niðurstöður skoðanakönnunar Capacent Gallup um að nær 85% svarenda telja það mjög eða frekar ólíklegt að þeir myndu kaupa erlenda mjólk ef hún stæði þeim til boða.

Könnunin var gerð í desember 2006 með 3.357 manna úrtaki. Í könnuninni sögðust ennfremur ríflega 60% mjög eða frekar andvígir því að nýtt kúakyn yrði flutt til landsins. Þegar spurt var að nýju í annarri könnun nú í apríl með 1.158 manna úrtaki var hlutfall andvígra komið niður í 53%. Þá jókst hlutfall þeirra sem voru mjög hlynntir úr 5,5% í 11%.

Í desemberkönnuninni voru þátttakendur spurðir hvort það hefði einhver áhrif á viðhorf þeirra ef innflutningur á nýju kúakyni myndi lækka verð á mjólk. 96% svarenda svöruðu því neitandi. Flestir þeirra sem voru andvígir kúainnflutningnum, eða 12%, sögðu íslensku mjólkina vera betri en þá erlendu og 11% voru á móti blöndun við aðra kúastofna.

Í vorkönnuninni sögðust 63% myndu velja íslenskan ost ef þeir gætu valið á milli innlends og erlends þar sem gæðin væru þau sömu. Þegar spurt var hvers þyrfti helst að gæta við innflutning á nýju kúakyni ef af yrði nefndi 41% sjúkdóma og fjórðungur svarenda vildi ekki blanda stofnum saman.

Þórólfur segir þessi viðhorf til kúainnflutnings ekki koma á óvart miðað við fyrri kannanir. „En það besta í þessu er hversu sáttir neytendur virðast vera við framleiðsluvörur mjólkuriðnaðarins,“ bendir Þórólfur á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert