Miklar umræður um skólamál á landsfundi

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokks í Laugardalshöll.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokks í Laugardalshöll. mbl.is/GSH

Miklar umræður urðu um ályktun um skóla- og fræðslumál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag, þó einna mest um það hvort taka skyldi fram að í samræmi við grundvallarreglu um að fé fylgi barni skipti engu hvort sá styrkur færi til opinberra aðila, einkaaðila eða til heimilisins sjálfs.

Þannig stóð setningin í upphaflegum ályktunardrögum, sem lágu fyrir landsfundinum en í starfshópi um skólamál á fundinum voru heimilin tekin út úr textanum. Á landsfundinum sjálfum kom síðan fram tillaga um að bæta heimilunum inn á ný.

Sú skoðun kom m.a. fram á fundinum að með þessu orðalagi væri verið að stuðla að því að konur yrðu bundnar yfir börnum sínum og færu síður út á vinnumarkað. Aðrir sögðu að málið snérist um frelsi einstaklingsins og rétt foreldra til að eiga val til að vera heima með börn sín. Það yrðu óviðkunnanleg skilaboð landsfundar, að slá því föstu, að útilokað væri, að foreldrar geti sinnt börnum sínum yfir hábjartan dag heldur verði þau að vera á stofnunum.

Á endanum samþykkti landsfundurinn með talsverðum meirihluta, að styrkur sveitarfélaga vegna barna geti runnið til heimila, ekki síður en opinberra aðila eða einkaaðila.

Einnig kom fram tillaga um að fellt yrði út úr skóla- og fræðslumálaályktuninni, að efla beri leikskólann sem fyrsta skólastig. Kom fram sú skoðun, að með þessu orðalagi væri í raun verið að ýta undir að skólaskyldu í leikskólum. Aðrir báru á móti þessu og sögðu að með þessari setningu væri verið að viðurkenna starf leikskólakennara. Mikill meirihluti fundargesta var andvígur því að setningin væri felld út.

Þá var fellt með miklum meirihluta atkvæða tillaga um að bæta í ályktunina, að hvers kyns starfsemi trúfélaga eigi ekkert erindi innan ríkisrekinna skóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert