Geir: Fer fram á endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Geir H. Haarde í lok landsfundar …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Geir H. Haarde í lok landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/GSH

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar hann sleit landsfundi flokksins í dag, að hann færi fram á það, að fá endurnýjað traust og endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn Íslands. Þá sagði Geir að kosningabaráttan, sem fer í hönd fyrir alþingiskosningarnar, yrði málefnaleg af hálfu flokksins vegna þess að þau málefni, sem flokkurinn setti fram, væru góð.

Geir sagði, að 27 dagar væru til kosninga og mikið verk væri framundan og barátta en flokkurinn hefði traustan grunn til að standa á.

Geir sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð miklum árangri á undanförnum árum en nú væri haldið á vit nýrra tíma. „Við ætlum að sýna og sanna, að Ísland er land tækifæranna. Hér vill fólk búa, hér vill fólk vera og búa börnum sínum góða framtíð," sagði Geir. Besta leiðin til að tryggja það væri að treysta Sjálfstæðisflokknum áfram til forustu í landsmálum á Íslandi.

Geir var endurkjörinn formaður flokksins á landsfundinum í dag með 95,8% atkvæða og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður með 91,3% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert