Skýrsla um flugvöll birt í fyrramálið

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur.

Skýrsla um mismunandi flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu verður birt á heimasíðu samgönguráðuneytisins í fyrramálið. Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem rætt var um flugvallarmálið utan dagskrár. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, sagði að í skýrslunni fái Hólmsheiði, Keflavík og Löngusker besta einkunn og langt umfram þá kosti sem fjallað er um varðandi Vatnsmýri.

Vilhjálmur sagði að það væri afar mikilvægt, að áfram verði flugvöllur í Reykjavík ef borgin eigi að gegna því hlutverki að vera miðstöð innanlandssamgangna. Sagðist Vilhjálmur ekki telja, að til greina komi, að flugvöllurinn verði fluttur til Keflavíkur.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, sagði að meginniðurstaða skýrslunnar væri sú, að þar væri fótunum kippt undan þeim hræðsluáróðri, að ef flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni sé sá eini kostur fyrir hendi að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert