Kúabændur vilja takmarkaðan innflutning erfðaefnis í tilraunaskyni

mbl.is/Þorkell

Samþykkt var á aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn var á Hótel KEA á Akureyri þann 13. og 14. apríl s.l. að lokið verði sem fyrst vinnu við mat á hagkvæmni þess að framleiða mjólk á Íslandi með nýju kúakyni og þannig myndaður grunnur að frekari ákvarðanatöku í málinu. Þá var hvatt til þess að leyfður verði takmarkaður innflutningur erfðaefnis í tilraunaskyni.

Einnig var samþykkt að leitað verði fjárhagslega og tæknilega forsvaranlegra leiða til að flytja inn erfðaefni úr Aberdeen Angus og Limousine holdakynjunum.

á fundinum kom fram að fundarmenn telji ljóst að notkun nýs kúakyns sé ein vænlegra leiða til að lækka framleiðslukostnað mjólkur. Jafnframt sýni viðhorfskannanir að núverandi kúakyn eigi mikilvægan þátt í tryggð neytenda við íslenska mjólk. Þessi sjónarmið þurfi að virða í framhaldinu. Með hliðsjón af framansögðu var samþykkt í leynilegri atkvæðagreiðslu með 26 atkvæðum gegn 7 að æskilegt sé að leyfður verði takmarkaður innflutningur erfðaefnis í tilraunaskyni, þá á vegum sérstaks félagsskapar fremur en Landssambands kúabænda. Þó er kveðið á um að takmarkanir á notkun þessa erfðaefnis og framkvæmd verkefnisins verði unnar í fullu samráði við LK og mjólkuriðnaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert