Slökkvistarfi lokið að mestu og hreinsunarstörf hafin í miðborginni

Frá slökkviaðgerðum í miðborginni í dag.
Frá slökkviaðgerðum í miðborginni í dag. mbl.is/Júlíus

Að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins er eiginlegu slökkvistarfi í miðborginni að mestu lokið en lögreglu vinnur nú ásamt slökkviliði og borgarstarfsmönnum að hreinsunarstörfum. Enn er þó verið að slökkva í glæðum hér og þar.

Aðgengi almennings að horni Lækjargötu og Austurstrætis niður að Hressingarskálanum hefur verið takmarkað og mun slökkviliðið vakta brunastaðinn í nótt.

Að sögn Unnars Ástþórssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er ljóst að húsnæðið sem hýsti skemmtistaðinn Pravda og söluturninn Fröken Reykjavík, þ.e Austurstræti 22, er ónýtt. Ekki er búið að meta húsnæðið að Lækjargötu 2 þar sem Kebabhúsið er til húsa. Hann segir þó ljóst að það sé illa farið eftir eld.

Hann segir að hreinsunarstörfum muni brátt ljúka en hann telur að hátt í 30 manns séu nú að störfum á brunavettvangi, þar af tæpur tugur lögreglumanna. Auk þess eru menn á vegum Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur, en þeir vinna nú að því að koma á rafmagni í nærliggjandi hús.

Aðspurður segist Unnar ekki vita betur en að nærliggjandi hús hafi nær alveg sloppið við vatnsskemmdir vegna slökkviaðgerðanna í dag. Eflaust sé eitthvað um reykskemmdir í húsum, eða reykjalykt. Starfsmenn á vegum tryggingarfyrirtækja eru komnir á staðinn til þess að meta það tjón.

Eldsupptök eru enn í rannsókn. Lögregla hefur rætt við vitni í dag og eigendur húsanna frá því eldur kviknaði í dag.

Þá er ekki vitað til þess að nokkur hafi slasast við slökkvistörf í dag, hvorki slökkviliðs- eða lögreglumenn né almenningur.

„Það hefur allt gengið frábærlega fyrir sig, bæði almenningi, fjölmiðlum, lögreglu og slökkviliði. Engir árekstrar hafa verið á nokkrum stöðum. Menn hafa borið sig alveg frábærlega, og við eru mjög þakklátir hvað menn hafa sýnt mikla virðingu þessum boðum og bönnum sem hafa verið í gangi hérna. Alveg sama hver það er,“ sagði Unnar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert