Ekki hægt að setja kröfur um að hús séu endurbyggð

Húsin eftir brunann í miðborg Reykjavíkur.
Húsin eftir brunann í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

„Það er hægt að hafa eldvarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í gömlum húsum ef þau eru tekin í gegn eins og t.d. Geysishúsið í Aðalstræti var tekið," segir Björn Karlsson brunamálastjóri. Bergsteinn Gizurarson, fyrrverandi brunamálastjóri, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að hefði brunahólfun verið í lagi í húsunum sem brunnu í miðborginni í síðustu viku hefði eldurinn ekki borist jafn hratt á milli húsa og raun bar vitni og því væri ljóst að eldvarnareftirlit hefði brugðist. Bergsteinn, sem var brunamálastjóri í 15 ár, sagðist ekki taka þau rök gild að erfitt væri að koma upp nægilegum brunavörnum í þetta gömlum timburhúsum. Slíkum húsum væri eins og öðrum hægt að skipta niður í brunahólf.

„Það hús [Geysishúsið] var meira eða minna skrallað að innan," heldur Björn áfram, „og eftir stóðu einungis útveggirnir. Húsið var síðan algjörlega endurbyggt með nútíma byggingarefnum og nútíma byggingaraðferðum. Þannig er hægt að ná upp góðum brunavörnum í svona gömlu húsi." Það segir Björn þó kosta um það bil þrisvar sinnum meira en að byggja alveg glænýtt hús. Björn segist vera sammála Bergsteini um að hægt sé að tryggja eldvarnir í gömlum húsum og segist fagna allri umræðu þar um.

Skipulags- og byggingarlög eru ekki afturvirk

„Stjórnvöld, þ.e.a.s. brunamálayfirvöld og slökkviliðin í landinu, hafa hins vegar ekki stjórnvaldsheimildir til að krefja eigendur húsa sem eru hundrað ára eða eldri um að rífa húsið sitt og byggja það aftur," segir Björn. Aðspurður jánkar hann því að öll mjög gömul hús í landinu séu þannig í sömu áhættu gagnvart bruna, en bendir þó á að skipulags- og byggingarlög séu ekki afturvirk.

Björn segir eldvarnareftirlitið geta farið í gömul hús og krafist þess að þau séu hólfuð af með eldtefjandi efnum, gipsveggjum og slíku. „Það er gert og sett viðvörunarkerfi í húsin. Eldvarnareftirlitið getur þannig farið fram á heilmiklar endurbætur í húsum þó að ekki sé hægt að fara fram á að húsið sé rifið til grunna og byggt aftur," segir hann með áherslu. „Það breytir ekki því að húsið er áfram gamalt og allir innveggir eru með holrýmum á milli og það sem var innan í veggjunum er þar ennþá. Auk þess er oft notað sag sem einangrunarefni á milli hæða. Þannig eru eldri hús einfaldlega í meiri brunahættu en ný hús."

Í hnotskurn
» Árið 2004 kviknaði í Lækjargötu 2. Þá mátti engu muna að eldurinn næði sér verulega á strik.
»Slökkviliðið var komið á staðinn fimm mínútum eftir tilkynningu og var það talið hafa ráðið úrslitum um að tókst að stöðva útbreiðslu eldsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert