Reglugerð undirrituð um aukinn þátt í tannlæknakostnaði fatlaðra og langveikra barna

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur undirritað reglugerð sem felur í sér að Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að taka aukinn þátt í kostnaði við tannlækningar fatlaðra og langveikra barna sem njóta umönnunargreiðslna og vegna tannlæknismeðferða þroskaheftra sem eru 18 ára og eldri.

Samkvæmt nýju reglugerðinni er Tryggingastofnun heimilað að greiða 100% í stað 90% kostnaðar, samkvæmt gjaldskrá ráðherra, við nauðsynlega almenna tannlæknismeðferð barna sem falla undir 1. 2. og 3. flokk reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þá er einnig heimilt samkvæmt reglugerðinni að hækka greiðslur vegna nauðsynlegra almennra tannlæknismeðferða andlega þroskaheftra einstaklinga, sem eru 18 ára eða eldri, úr 90% í 100% samkvæmt gjaldskrá ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert