Segja að einungis brot af 180 veikindatilfellum tengist mengun í göngunum

Úr Kárahnjúkagöngum.
Úr Kárahnjúkagöngum. mbl.is/Steinunn

Landsvirkjun segir að einungis brot af þeim 180 veikindatilfellum meðal starfsfólks við Káráhnjúkavirkjun, er nefnd hafi verið í tengslum við mengun í göngum undir Þrælahálsi, tengist loftmengurn í göngunum. Málið hafi verið rætt á fundi með Heilbrigðisstofnun Austurlands í dag, og þar hafi komið fram, að talan 180 taki til allra þeirra sem komu til heilsugæslunnar við Kárahnjúka 12.-22. apríl.

Fréttatilkynning frá Landsvirkjun nú síðdegis er svohljóðandi:

„Aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar eru 50 km löng með aðgöngum. Að undanförnu hefur verið fjallað um loftmengun á kaflanum undir Þrælahálsi, þar sem umfangsmikil frágangsvinna fer fram. Helstu staðreyndir málsins eins og Landsvirkjun best þekkir á þessari stundu eru sem hér segir:

Þorsteinn Njálsson, læknir við Kárahnjúka, hafði samband við verkefnisstjóra Landsvirkjunar símleiðis 22. apríl í fyrsta skipti vegna loftmengunar og upplýsti síðan skriflega að þá um nóttina hefðu 4 menn komið með slæman astma og öndunarþyngsli. Jafnframt upplýsti læknirinn að í vikunni á undan hefðu komið 4 menn með höfuðverk, öndunarþyngsli og töluverð miðtaugakerfiseinkenni.

Verkefnisstjóri Landsvirkjunar gaf framkvæmdaeftirliti Landsvirkjunar (VIJV) þá þegar heimild til að stöðva verkið á þessum kafla ganganna ef mengun færi yfir leyfileg mörk. Reyndar þarf framkvæmdaeftirlitið ekki að leita neinnar heimildar hjá Landsvirkjun til að stöðva vinnu á virkjunarsvæðinu ef því þykir ástæða til af öryggis- eða heilsufarsástæðum. Þegar þetta kom upp gáfu mengunarmælingar í göngunum ekki tilefni til að ætla að hætta væri á ferðum og vinna við að setja upp aukna loftræsingu var í fullum gangi af hálfu verktakans. Vinnueftirlit ríkisins stöðvaði engu að síður verkið þriðjudaginn 24. apríl og ákvað að málið skyldi kannað frekar.

Landsvirkjun og framkvæmdaeftirlitið vissu þannig um 8 manns sem hefðu veikst vegna loftmengunar þar til því var haldið fram í fréttum RUV þann 25. apríl að alls 180 manns hefðu veikst í göngunum. Engar upplýsingar höfðu þá borist til Landsvirkjunar eða framkvæmdaeftirlitsins frá heilsugæslunni við Kárahnjúka um allan þennan fjölda. Landsvirkjun er enn einungis kunnugt um þessi 8 tilvik og að 39 manns hafi veikst vegna matareitrunar 20. apríl.

Málið var rætt á fundi með Heilbrigðisstofnun Austurlands í dag. Þar kom fram að talan 180 tekur til allra þeirra sem komu til heilsugæslunnar við Kárahnjúka 12.-22. apríl. Heilbrigðisstofnun Austurlands fer nú yfir sjúkraskýrslurnar og Landsvirkjun bíður niðurstöðu þeirra athugunar. Ljóst samt nú þegar að einungis brot af þessum fjölda heimsókna tengist loftmengun í göngunum.

Vísbendingar um loftmengun vegna aukinna umsvifa í göngunum og breyttra aðstæðna bárust framkvæmdaeftirlitinu 12. apríl. Þá þegar hófust aðgerðir verktakans við undirbúning að frekari loftræsingu og mun vinnu við endurbætur væntanlega ljúka á morgun, 27. apríl.

Í hnotskurn er því þetta mál þannig vaxið:

Loftræsing í aðrennslisgöngunum hefur ekki verið vandamál allan verktímann eða frá árinu 2004.

Á árinu 2007 eykst frágangsvinna með steinsteypu verulega en sú vinna útheimtir fleiri tæki sem brenna dísilolíu.

Skömmu fyrir miðjan apríl verður vart aukinnar mengunar með mælingum á fáeinum afmörkuðum svæðum og þá þegar er ráðist í að undirbúa aðgerðir sem felast í að setja upp meiri loftræsibúnað.

Hinn 22. apríl var upplýst um 8 veikindatilfelli sem rekja mætti til loftmengunar.

Aðgerðir til að auka og bæta loftræsingu voru þá þegar í fullum gangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert