Bakkavík segir 48 manns upp störfum

Frá höfninni í Bolungarvík.
Frá höfninni í Bolungarvík. mynd/bb.is

Bakkavík hf., í Bolungarvík hefur sagt upp 48 starfsmönnum af 60 í landvinnslu félagsins. Ástæða uppsagnanna er afar erfiður rekstur rækjuvinnslu undanfarin ár sem hafi haft áhrif á lausafjárstöðu félagsins. Einnig hafi frá því í byrjun þessa árs verið erfitt að afla hráefnis fyrir rækjuvinnslu. Stjórnendur segjast þó vonast til þess að það takist að afla hráefnis svo vinnsla geti hafist á ný.

„Til að geta staðið í skilum við skuldbindingar hefur stjórn félagsins gripið til þess ráðs að selja hlut sinn útgerðarfélaginu Rekavík. Sala hlutabréfanna gerir Bakkavík kleift að borga upp lausaskuldir. Hins vegar hefur sala á hlut félagsins í Rekavík þau áhrif að óvissa skapast um hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu félagsins, segir í frétt frá fyrirtækinu.

„Frá ársbyrjun hefur verið erfitt að afla hráefnis fyrir rækjuvinnslu og það sem hefur verið á boðstólum hefur verið of dýrt til þess að láta enda ná saman. Rækjuveiði við Ísland hefur dregist mikið saman, var innan við 1.000 tonn á síðasta ári sem er verulegur samdráttur frá 70.000 tonna veiði fyrir áratug. Á sama tíma hefur veiði minnkað í Barentshafi og á Flæmingjagrunni en aukist við Kanada og Grænland þar sem Íslendingar hafa litla möguleika á að kaupa hráefni. Nú er svo komið að einungis sjö verksmiðjur eru eftir hér á landi og tvær í Noregi. Fyrir fimm árum voru yfir 20 rækjuverksmiðjur hér og 10 í Noregi.

Í ljósi ofangreinds er stjórn Bakkavíkur knúin til þess að taka þá ákvörðun að segja upp 48 starfsmönnum af 60 í landvinnslu félagsins. Stjórnendur vonast til þess að það takist að afla hráefnis svo vinnsla geti hafist á ný.“ segir í tilkynningu frá Bakkavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert