Eftirlitsflug NATO möguleiki

Eftir Ólaf Þ. Stephensen og Rósu Björk Brynjólfsdóttur
Hermálanefnd Atlantshafsbandalagsins hefur nú til umfjöllunar óskir Íslands um að bandalagið haldi uppi reglulegu eftirliti með íslenzku lofthelginni.

NATO hefur séð um slíkt eftirlit í fjórum aðildarríkjum, sem ekki hafa eigin flugher; Eystrasaltsríkjunum þremur og Slóveníu. Þar er um að ræða daglegar eftirlitsflugferðir með orrustuflugvélum.

Slíkt er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ekki talið raunhæft hér, vegna kostnaðar og skorts á flugvélakosti. Óformlega hefur hins vegar verið ræddur sá möguleiki að flugsveitir frá öðrum NATO-ríkjum hafi hér viðdvöl í 1–2 vikur í senn, á tveggja til þriggja mánaða fresti.

Þeir samningar sem gerðir hafa verið við Danmörku og Noreg um heræfingar hér á landi og tvíhliða viðræður við Bretland, Þýzkaland og Kanada tengjast þessum umræðum ekki beint. Viðmælendur Morgunblaðsins benda þó á að samþykki NATO að halda hér uppi reglulegu eftirliti kæmi það í hlut aðildarríkjanna að framkvæma það og því sé verið að treysta grundvöllinn með tvíhliða samningum. Til greina komi að samhæfa tvíhliða samstarf um æfingar og heimsóknir flugsveita og lofthelgiseftirlit á vegum bandalagsins.

Meira eftirlit vegna Drekaolíu?

Fréttir um að til standi að veita leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi við Jan Mayen-hrygg, innan íslenzkrar efnahagslögsögu, hafa ekki veikt samningsstöðu Íslands innan NATO. Ef olíuvinnsla verður þar í framtíðinni mun þörf fyrir eftirlitsflug stóraukast. Norðmenn hafa t.d. mikið eftirlit með olíuvinnslusvæðum sínum, m.a. vegna hættu á hryðjuverkum.

„Það hefur komið fram í fréttum upp á síðkastið að það eigi að leita að olíu á Drekasvæðinu svokallaða. Þá geta allir ímyndað sér hvað það er mikilvægt að hafa eftirlit þar," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Þegar svona mál koma upp býr svona grannríkjasamband í haginn í því sambandi. Auðvitað vitum við ekki hvort það finnst einhver olía, hvort hún er vinnanleg eða hvenær það yrði. En þetta er dæmi um hvað hugtakið öryggi á friðartímum er breytilegt."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert