Bjarni segist ekki hafa neitað Sigurjóni um gögn

Bjarni Benediktsson, alþingismaður og formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir það rakalausar dylgjur hjá Sigurjóni Þórðarsyni, alþingismanni, að Bjarni hafi sagt ósatt um vitneskju hans varðandi tengsl Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, við ákveðinn umsækjanda um ríkisborgararétt.

„Netverjinn Sigurjón heldur því jafnframt fram að ég hafi neitað honum um afhendingu gagna vegna umsókna um ríkisborgararétt. Þetta er hreinn uppspuni. Ég hef ekki heyrt frá Sigurjóni í margar vikur og þaðan af síður fengið frá honum slíka beiðni. Ummæli hans um að aðrir greini rangt frá hitta hann því sjálfan fyrir. Þingmaðurinn veður áfram í þeirri villu að ég hafi heimildir til að mæla fyrir um aðgang að skjölum og gögnum. Mér er kunnugt um að hann hafi leitað til þingsins með beiðni um upplýsingar. Það erindi fær afgreiðslu hjá skrifstofu þingsins eins og önnur erindi þingmanna á grundvelli gildandi laga og reglna," segir í tilkynningu frá Bjarna.

Hann segist hafa haft frumkvæði að því, að láta hefja vinnu við greiningu og flokkun þeirra erinda sem allsherjarnefnd hafi afgreitt á líðandi kjörtímabili. Þessar upplýsingar ættu að vera aðgengilegar síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert