Um ríkisborgararétt og Kastljósið

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi frá Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra:

    Ég hef undanfarna daga setið undir ásökunum Kastljóssins. Allir þeir sem heyrt hafa svör Bjarna Benediktssonar, Guðrúnar Ögmundsdóttur og Guðjóns Ólafs Jónssonar hljóta að spyrja sig þess hvað Kastljósinu gangi til með umfjöllun um veitingu ríkisborgararéttar til eins tiltekins umsækjanda, ungrar stúlku frá Mið-Ameríku, sem tengist mér. Er Kastljósið að láta misnota sig til að koma höggi á mig og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninga?

    Stórfrétt Kastljóssins í upphafi var að umræddur umsækjandi hefði einungis dvalist í fimmtán mánuði á Íslandi áður en Alþingi veitti réttinn og mátti skilja sem svo að væri nánast einsdæmi og hin mesta spilling. Staðreyndir málsins eru þær að á þessu kjörtímabili hafa 144 einstaklingar fengið ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi. Þar af höfðu 30 einstaklingar dvalist hér eitt ár eða skemur.

    Næst birti Kastljós umsókn þessa einstaklings og gerði lítið úr þeirri ástæðu að umsóknin byggði á skertu ferðafrelsi. Ég hef ekki getað útskýrt fyrir stúlkunni af hverju Kastljós í réttarríkinu Íslandi braut á henni mannréttindi með broti á friðhelgi einkalífs hennar. Ég hef ekki heldur getað útskýrt af hverju Kastljós birtir gögn, sem augljóslega er komið á framfæri með ólögmætum hætti. Í ljós hefur komið að 21 aðrir einstaklingar hafa fengið ríkisborgararétt m.a. á grundvelli skerts ferðafrelsis. Í Kastljósinu var m.a. látið að því liggja að aðallega væri um börn að ræða sem fengju ríkisborgararétt með lögum. Staðreyndin er sú að af þessum 144 voru einungis 14 börn.

    Formaður allsherjarnefndar hefur hrakið allar fullyrðingar sem ætlað var að sýna að afgreiðsla umsóknar þessarar stúlku hafi á nokkurn hátt verið óeðlileg eða umsóknin fengið "sérmeðferð". Ríkisborgarréttur er veittur með lögum tvisvar á ári, í síðara skiptið rétt fyrir þinglok og sumar umsóknir eru þá nýkomnar inn í dómsmálaráðuneytið en aðrar hafa beðið lengur. Fleira mætti tína til um ónákvæmni umfjöllunar Kastljóssins og skrumskælingu staðreynda. Ég áskil mér það síðar, en spyr nú. Hvar liggur trúverðugleikinn?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert