Áhyggjur af ástandinu

Fjölmennur borgarafundur um horfur í atvinnumálum í Bolungarvík var haldinn í ráðhúsi staðarins í gær. Til fundarins var boðað eftir að erfiður rekstur rækjuvinnslu fiskvinnslufyrirtækisins Bakkavíkur hf. varð til þess að það sagði upp 48 af 60 starfsmönnum í landvinnslunni.

Á fundinn mættu fulltrúar allra flokka sem bjóða fram í Norðvesturkjördæmi. Það var Guðmundur Halldórsson, fyrrverandi formaður smábátafélagsins Eldingar, sem stóð fyrir fundinum og var hann ómyrkur í máli er hann lýsti ástandinu í Bolungarvík sem hann kennir fiskveiðistjórnunarkerfinu um.

Anna G. Edvardsdóttir, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur, flutti framsögu á fundinum og lýsti hún yfir miklum áhyggjum af horfum í atvinnumálum Bolvíkinga.

Fundurinn snerist að miklu leyti um málefni fiskvinnslu og útgerðar og beindust spjótin því að Bolvíkingnum og sjávarútvegsráðherranum Einari Kristni Guðfinnssyni.

Einar sagði að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir erfiðleikum rækjuvinnslunnar og vísaði í tillögur Vestfjarðanefndarinnar um að frysta afborganir og vexti lána rækjuverksmiðja hjá Byggðastofnun í fimm ár.

Kristinn H. Gunnarsson sakaði stjórnvöld um að hafa ekki pólitískan vilja til þess að snúa þróuninni við og sagði þau skorta bæði vilja og þor til að taka á vandamálum. Þá sagði Kristinn að til stæði að leggja af línuívilnun og vísaði í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að einfalda eigi kvótakerfið. Línuívilnun er mjög mikilvæg fyrir smábátaútgerð í Bolungarvík og hleypur verðmæti hennar fyrir bæjarfélagið á hundruðum milljóna króna. Sjávarútvegsráðherra sagði hins vegar að ekki stæði til að leggja línuívilnun af og lýsti sig algjörlega mótfallinn því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert