Best að vera móðir í Svíþjóð og á Íslandi

Börn í Úganda.
Börn í Úganda. Reuters

Það er best að vera móðir á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð en verst er ástandið í Níger, Sierra Leone og Jemen, samkvæmt árlegri skýrslu, sem samtökin Save the Children hafa sent frá sér. Barnadauði er minnstur í heiminum á Norðurlöndunum þremur en á því sviði hafa Egyptar náð mestum framförum frá árinu 1990. Ástandið hefur hins vegar versnað mest í Írak á því tímabili.

Í skýrslunni kemur fram, að árið 2005 létu 122 þúsund börn lífið í Írak áður en þau náðu fimm ára aldri. Yfir helmingur þessara dauðsfalla var meðal barna á fyrstu mánuðum ævinnar.

Í Egyptalandi hafa hins vegar orðið miklar framfarir í heilsugæslu og mæðraeftirliti sem hafa leitt til þess að barnadauði hefur minnkað um 68% frá árinu 1990.

Charles MacCormack, forseti Save the Children, segir að yfir 10 milljónir barna undir 5 ára aldri látist árlega, eða nærri 28 þúsund á dag, langflest í þróunarríkjunum. Leiðir til að draga úr barnadauðanum séu ódýrar en þar er um að ræða bólusetningar, flugnanet og að grafa brunna. Hafi fjöldi mæðra og barna ekki aðgang að slíku.

Talið er að 9 af hverjum 10 mæðrum sem búa í Afríku sunnan Sahara missi barn á ævinni.

Ársskýrsla Save the Children

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert