„Minn tími í sjávarútvegi er liðinn"

Hinrik Kristjánsson.
Hinrik Kristjánsson. mbl.is/Halldór
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is
Eigendur Fiskvinnslunnar Kambs ehf. á Flateyri hafa ákveðið að hætta útgerð og fiskvinnslu og selja allar eignir félagsins. Um 120 manns starfa hjá fyrirtækinu, 65 í landvinnslu og um 55 við útgerð fimm báta. Í gær var haldinn fundur með starfsfólkinu þar sem þessi ákvörðun var kynnt. Hinrik Kristjánsson framkvæmdastjóri sagði að allir starfsmenn sem mættir voru hefðu verið á fundinum. Síðdegis átti hann fundi með áhöfnum bátanna.

Fiskvinnslan Kambur ehf. er að 83% í eigu hjónanna Hinriks Kristjánssonar og Ingibjargar Kristjánsdóttur og barna þeirra. Steinþór Bjarni Kristjánsson skrifstofustjóri á 17%. Hinrik sagði erfitt rekstrarumhverfi aðalástæðu ákvörðunarinnar um að hætta starfseminni.

„Við búum við mjög sterka krónu og allar spár eru um að hún verði það áfram. Það eru háir vextir, hátt verð á aflaheimildum og leigukvóta. Við erum mjög háð leigukvóta því við eigum ekki það miklar aflaheimildir," sagði Hinrik. Í fréttatilkynningu kemur fram að samkeppnisstaða sjávarútvegs á Vestfjörðum sé slæm og hafi farið versnandi, þó einkum í landvinnslu. Þar er t.d. nefndur hár flutningskostnaður sem skekki mjög samkeppnisstöðu Vestfjarða. Þá hafi Kambur verið háður leigukvóta og þrátt fyrir umtalsverð kaup á varanlegum aflaheimildum, sem valda mikilli skuldsetningu, hafi Kambur þurft að leigja þúsundir tonna til að tryggja hráefni. Leigukvóti hafi hækkað mjög mikið, líkt og verð á varanlegum aflaheimildum. Hinrik sagði eignir fyrirtækisins vera meiri en skuldir og ætlun eigendanna að greiða upp allar skuldir Kambs.

„Fyrst og fremst er það ætlun okkar að greiða götu fólksins og aðstoða það við að fá vinnu. Horfurnar eru ekki alslæmar því þannig ástand er á Íslandi að það vantar víða fólk til starfa. Félagar mínir hér á svæðinu, í fiskvinnslunni, hafa tekið þokkalega í það ef þá vantar starfsmenn þegar hallar sumri. Við höfum meiningar um að afla hráefnis og vinna út ágúst." Af 65 starfsmönnum Kambs í landvinnslu eru sjö af íslenskum uppruna. Margir þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir hafa starfað lengi hjá Kambi, eru íslenskir ríkisborgarar og eiga íbúðarhúsnæði á Flateyri. Í útgerðinni og beitningunni eru um 60% starfsmanna af íslenskum ættum og 40% af erlendum uppruna. Flestir hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest, sumir skemmri og aðrir lengri.

Bátar og kvóti innan svæðisins

Hinrik sagði að því væri ekki að neita að mikil ásókn væri í að kaupa báta og aflaheimildir. Verið er að ræða við aðila í Bolungarvík og Hnífsdal um kaup á tveimur bátum Kambs. Sá stærri er beitningavélarbáturinn Halli Eggerts ÍS og fylgir honum meirihluti aflamarks fyrirtækisins, 800-900 þorskígildi. Hitt er minni bátur sem einnig fylgir töluvert af krókaaflamarki. Hinrik sagði að rætt yrði við líklega kaupendur í næstu viku. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru fyrirtækin Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík og HG í Hnífsdal að skoða kaup á Halla Eggerts ÍS.

Ekkert of bjartsýnn

Undanfarnar vikur hefur Hinrik haft samband við ýmsa sem hann taldi geta haft áhuga á að kaupa Kamb og að halda áfram starfsemi á Flateyri. "Sú tilraun mín hefur ekki gengið, því miður. Nú er þetta orðið opinbert og menn vita af þessu. Ég er ekkert of bjartsýnn miðað við þær aðstæður sem hér ríkja," sagði Hinrik. En ætlar hann að fara frá Flateyri?

„Það vona ég ekki, en minn tími í sjávarútvegi er liðinn. Ég hef eytt ævinni á þessari eyri, hef tekist á við það og reynt að gera mitt besta. Ég á mitt hús á Flateyri og hyggst ekki selja það. Hér hefur mér liðið vel, að undanskildum þeim áföllum sem hér hafa dunið yfir, en hér er gott að vera. Því er ekki að neita að félagslegi þátturinn hefur látið mikið á sjá. Það verður að koma í ljós hvað verður hægt að gera og hvað verður í boði." Varðandi félagslega þáttinn segir Hinrik að mjög halli á sveitarfélög á landsbyggðinni.

Fréttatilkynningu Kambs lýkur á orðunum: "Það að vera stærsti vinnuveitandi í litlu þorpi er mikið ábyrgðarhlutverk. Það víkur sér enginn undan þeirri ábyrgð meðan stætt er. Sé viðunandi rekstrargrundvöllur ekki til staðar er engum greiði gerður með áframhaldandi rekstri."

Grípa til aðgerða

„Þetta er skelfilegt," segir Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um þróun mála á Flateyri þar sem búa um 300 manns. „Fyrirtækið sem er burðarásinn í atvinnulífinu á Flateyri er að hætta. Eftir stendur fiskvinnsluhús vel búið tækjum og hæft starfsfólk, en enginn til að reka fyrirtækið og enginn sem á fisk í húsið – allavega í bili."

Halldór segir útgerðarmenn á norðanverðum Vestfjörðum vilja eignast sem mest af veiðiheimildum Kambs. Það sé lykilatriði fyrir svæðið. Sé möguleiki á forkaupsrétti sveitarfélagsins verði hann nýttur. Halldór vill setja upp teymi sveitarfélaga á svæðinu, Vinnumálastofnunar, Fjölmenningarseturs, fræðslumiðstöðvar og fleiri til að hjálpa starfsfólki Kambs að fá aðra vinnu, bjóða endurmenntun og námskeið. Halldór taldi að nú vantaði 80-90 manns í vinnu á svæðinu og fleiri störf að bætast við. Í þriðja lagi yrði reynt að endurreisa fiskvinnslu eða annan rekstur sem munar um á Flateyri.

Mikið áfall

Verkalýðsfélag Vestfirðinga mun eiga fund í næstu viku með félagsmönnum sem vinna hjá Kambi, að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns félagsins. Hann var á fundinum í Kambi í gær.

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir alla hér, en við munum styðja við bakið á okkar fólki eftir bestu getu," sagði Finnbogi. Hann sagði verkalýðsfélagið reiðubúið að vinna með sveitarfélaginu eða öðrum til að létta fólkinu róðurinn. „Fólk er að missa lífsviðurværi sitt, fólk sem búið er að festa sér húseignir og er að byggja upp samfélag sitt þegar burðarás þess hverfur í raun. Það er verið að skera á lífæð samfélagsins."

Finnbogi sagði að ef starfsemi Kambs legðist af væri lítil önnur vinna í boði á Flateyri. Hann sagðist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda ef enginn fengist til að hefja atvinnurekstur á staðnum.

Finnbogi sagði að nú væri lag að nýta aðstöðu til námskeiðahalds í sjálfshjálp og endurmenntun og hugað yrði að því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert