Þrjú umferðarslys vegna hálku á Reykjanesi

Þrjú umferðarslys, sem rekja má til krapa og hálku á vegum, urðu á Reykjanesi í nótt. Þar á meðal fóru bæði fólksbíll og lítil rúta út af Reykjanesbraut við Stapa um klukkan hálf þrjú þegar ökumaður fólksbílsins reyndi að aka fram úr rútunni en missti stjórn á bílnum vegna hálku og lenti utan í rútunni. Rútan endaði um 20-30 metra fyrir utan vegin uppi í stórgrýti.

Lögreglan á Suðurnesjum segir, að ökumaður og farþegi í fólksbílnum hafi verið fluttir með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ökumaður rútunnar var einnig fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Aðeins 9 mínútum síðar eða kl. 2:43 var tilkynnt um umferðarslys á Grindavíkurvegi nærri Svartsengi. Þar hafði ungur ökumaður misst stjórn á bíl sínum sökum hálku og hafnaði hún utan vega. Ökumaðurinn slasaðist á höfði og var fluttur með sjúkrabifreið á Landsspítalann í Fossvogi.

Kl. 5:22 var tilkynnt um bílveltu á Reykjanesbraut á Stapanum. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bíl sínum og hún hafnað utan vega á toppnum. Meiðsli voru óveruleg í þessu óhappi og var fólkinu í bílnum, sem var á leið í flug, ekið upp í Leifsstöð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert