Kastaði af sér þvagi í stigahúsi vegna ósættis við nágranna sína

Nágrannaerjur sem koma til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru stundum harðvítugar, að því er segir í tilkynningu frá LRH. Sem dæmi um slíkar deilur nefnir lögreglan að maður nokkur hafi kastað af sér þvagi í stigahúsi fjölbýlishúss, en hann átti í deilum við nágranna sína. Í vor og vetur hafa lögreglumenn í nokkrum tilvikum þurft að skakka leikinn þegar í óefni var komið.

Vorverkin geta t.d. endað með leiðindum en fyrir ekki alls löngu var lögreglan beðin um að stöðva mann sem var einum of duglegur að mála. Tilkynnandi sagðist eiga vegginn sem maðurinn væri að mála og óskaði þess að málarinn yrði stöðvaður tafarlaust. Um svipað leyti var beðið um aðstoð lögreglu þar sem verið var að fella tré. Deilumál af því tagi koma upp árlega en þeim geta líka fylgt átök um lóðarmörk. Skjólveggir og grindverk geta einnig bakað vandræði að mati nágranna sem benda á að vegna þeirra fái sólin ekki að skína óhindrað á garða og tún. Fyrir skömmu var lögreglan kölluð til í slíku máli en hún gat lítið aðhafst því þar hafði grindverk verið fjarlægt í heilu lagi í óþökk eiganda.

Nágrannadeilur geta tekið á sig ýmsar fleiri myndir og nefna má að lögreglu hafa borist kvartanir þar sem fullorðið fólk hefur staðið fyrir svokölluðu bjölluati. Sömuleiðis hafa einstaka aðilar gripið til þess óþverrabragðs að hella málningu inn um bréfalúgur hjá fólki. Að hindra för ökutækja er líka velþekkt þegar menn eru ósáttir. Á dögunum lagði maður bíl sínum í veg fyrir ökutæki manns sem hann átti sökótt við. Bíll þess síðarnefnda komst hvergi en sá fyrrnefndi færði bílinn sinn eftir fortölur lögreglumanna. Þá kemur fyrir að eggjum, tómatsósu og öðrum matvælum er hent í bíla og þess eru líka dæmi að bílar hafi verið rispaðir þegar heiftin er mikil.

Í tilkynningu LRH segir að lokum að það væri kannski betra fyrir alla ef fleiri borgarar hefðu kærleiksboðorðin að leiðarljósi en í þeim segir m.a. þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert