Sjö af 25 sölustöðum í Hafnarfirði seldu unglingum tóbak

Reuters

Forvarnarnefnd Hafnarfjarðar stóð þann 14. maí sl. fyrir könnun þar sem tveir 15 ára unglingar úr 10. bekk fóru á sölustaði tóbaks í Hafnarfirði. Unglingarnir reyndu að kaupa tóbak á 25 sölustöðum og tókst það á sjö sölustöðum, eða í 28% tilvika. Á einum sölustaðnum vorkenndi sölumaður unglingunum að geta ekki keypt tóbak og gaf þeim tvær sígarettur af eigin birgðum.

Fram kemur í fréttatilkynningu að upplýsingar úr könnuninni verði sendar heilbrigðiseftirliti Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðisins þar sem unnið verður úr þeim. Má búast við því að þeir staðir sem uppvísir urðu að því að selja börnunum tóbak fái áminningu eða verði sviptir tóbakssöluleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert