Íslendingar taki forustu í baráttu gegn haf- og loftmengun

Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var kynntur í Þingvallabænum í dag.
Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var kynntur í Þingvallabænum í dag. mbl.is/Ómar

Í nýjum stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar er lögð áhersla á að Ísland verði áfram í fararbroddi þeirra þjóða sem búa við best lífskjör og í fremstu röð ríkja á ýmsum sviðum, svo sem í menntamálum, heilbrigðismálum, umhverfismálum. Einnig segir, að Íslendingar eigi að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og loftslagsbreytingum.

Í sáttmálanum segir m.a. að íslenskt atvinnulíf muni einkennast í sívaxandi mæli af þekkingarsköpun og útrás. Ríkisstjórnin setji sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum og stefna hennar sé einnig, að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Lögð verði stóraukin áhersla á forvarnir á öllum sviðum og stuðlað að heilbrigðari lífsháttum.

Þá segir, að ríkisstjórnin einsetji sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum og íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir, séu í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Þá eigi Íslendingar að stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert