Stefnt að lækkun skatta á kjörtímabilinu

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna stefnuyfirlýsingu nýrrar …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. mbl.is/Sverrir

Stefnt er að frekari lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki á kjörtímabilinu að því er kemur fram í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Þá verður unnið að endurskoðun á skattkerfi og almannatrygginga og leitað leiða til að lækka skatta á fyrirtæki. Einnig verður kerfi óbeinna skatta, virðisaukaskatts og vörugjalda, endurskoðað og stefnt að því að afnema stimpilgjöld á kjörtímabilinu.

Einnig kemur fram í stefnuyfirlýsingunni, að unnið verði að einföldun almannatryggingarkerfisins. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega og hraðað verði uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Þá er stefnt að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67-70 ára. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin sem og skerðing tryggingarbóta vegna tekna maka. Jafnframt er stefnt að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði. Fylgt verður eftir tillögum örorkumatsnefndar og stefnt að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert