Meðal giftingaraldur kvenna tæp 32 ár og karla 34 ár

Árið 2006 gengu 1681 pör í hjónaband hér á landi. Einnig staðfestu tuttugu pör samvist, tíu pör karla og tíu pör kvenna. Giftingaraldur hefur hækkað jafnt og þétt frá því um 1980 og nú er meðalgiftingaraldur áður ógiftra kvenna 31,7 ár og áður ógiftra karla 33,9 ár.

Fram kemur hjá Hagstofunni, að árið 2006 skráðu 1749 pör sig í óvígða sambúð á sama tíma og 577 pör skráðu sig úr óvígðri sambúð. Giftingartíðni var 5,5 á hverja 1000 íbúa á síðasta ári, sem er álíka há giftingartíðni og í Noregi og Finnlandi. Af Norðurlöndum er giftingartíðni hæst í Danmörku, nær 7 af 1000 íbúum en lægst í Svíþjóð, um 4 af 1000 íbúum.

Giftingartíðni hefur verið háð allmiklum sveiflum á undanförnum áratugum, að sögn Hagstofu. Á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda var hún í kringum 8 af hverjum 1000 íbúum. Giftingartíðnin náði sögulegu lágmarki um 1990 þegar hún var lægst eða 4,5 á hverja 1000 íbúa. Frá miðjum 10. áratug 20. aldar hefur giftingartíðni hækkað. Giftingartíðni varð áberandi há aldamótaárið 2000, eða 6,3 af hverjum 1000 íbúum, og varð aukningin einkum í kirkjulegum vígslum en þeim fjölgaði úr 1.311 árið 1999 í 1.518 árið 2000. Borgaralegum vígslum fjölgaði aftur á móti ekki nema úr 249 í 259.

Langflest hjónabönd eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð og samkvæmt upplýsingum á hjónavígsluskýrslum bjuggu nær níu af hverjum tíu hjónaefnum saman áður en þau festu ráð sitt. Árið 2006 skráðu 1749 pör sig í óvígða sambúð hjá Þjóðskrá. Stofnaðar sambúðir teljast því vera heldur fleiri en hjónavígslur eða 5,7 af 1000 íbúum.

Samkynhneigðum var með nýjum lögum í vor gert kleift að skrá sig í sambúð hjá Þjóðskrá. Á þeim rúmlega sex mánuðum frá því að lögin tóku gildi hafa 52 pör samkynhneigðra skráð sig í sambúð. Hagstofan segir það vekja athygli, að mun fleiri pör kvenna en karla skráðu sig í sambúð, 37 pör kvenna og 15 pör karla.

Frá því að lög um staðfesta samvist tóku gildi árið 1996 hafa 155 pör staðfest samvist og eru pör karla og kvenna nær jafn mörg. Flestar staðfestar samvistir urðu árið sem lögin tóku gildi.

Giftingaraldur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert