„Það er ekki allt í lagi“

Undanfarin tvö ár hefur mikið borið á mávum í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og hafa margir kvartað undan átroðningi fuglsins inn í mannabyggðir. Fuglafræðingar benda á að ástandið sé mjög óvenjulegt og að það tengist atferlisbreytingum hjá fuglategundinni. Fæðuskortur rekur máva frá varpstöðvum inn í þéttbýlið.

„Mávarnir eru að segja okkur að það er ekki allt í lagi í sjónum,“ segir Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Reykjaness, í samtali við mbl.is „Það er alvarlegt ástand í gangi sem við skiljum ekki og mávarnir eru að minna okkur á það.“

Sílamávurinn hefur til að mynda verið mjög aðgangsharður í ætisleit við Reykjavíkurtjörn og jafnvel veitt sér andarunga til matar.

Gunnar segir stofn sílamávsins hafa fjölgað mjög mikið undanfarin ár en árið 2004 virðist sem að hann hafi náð hámarki. Ári síðar hafi farið að halla undan fæti í varpi hjá mávnum og það varð algjör viðkomubrestur, þ.e. fáir ungar komust á legg úr varpinu.

Botninn datt svo algjörlega úr varpinu sl. sumar og var því lítið sem ekkert framleitt af ungum í fyrra.

Gunnar segir allt benda til þess að ástandið muni verða svipað í ár og í fyrra enda hagi fuglinn sér með svipuðum hætti.

Bent hefur verið á að að ein hugsanleg leið til að fækka heimsóknum máva til borgarinnar sé að hætta að gefa öndunum brauð við Reykjavíkurtjörn þar sem brauðgjafirnar laði mávana að. Ekki þurfi að hafa áhyggjur af öndunum sem þurfi ekki á brauðgjöfum að halda yfir sumarmánuðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert