Rauði krossinn styrkir innflytjendur í Evrópu

Landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu hafa undirritað skuldbindingar um að styðja innflytjendur í álfunni í því skyni að stuðla að því að þeir njóti jafnréttis á við aðra og jafnra tækifæra í samfélaginu. Þetta var gert á Evrópuráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans um alþjóðlega fólksflutninga, en henni lauk í Istanbúl í gær.

Í skuldbindingunum felst meðal annars yfirlýsing um að félög Rauða krossins og Rauða hálfmánans muni vinna gegn kynþáttafordómum, útlendingahatri, mismunun og skorti á umburðarlyndi og leggja áherslu á skilning og virðingu í garð innflytjenda. Styrkja beri innflytjendur og hvetja á stjórnvöld, atvinnulíf og almenning til að berjast gegn einangrun, mismunun og útilokun fólks vegna uppruna þess, að því er fram kemur í tilkynningu.

Gagnkvæm aðlögun er grundvallaratriði í starfi Rauða krossins í málefnum innflytjenda og hyggjast landsfélögin einbeita sér sérstaklega að því viðfangsefni. Það er því mjög mikilvægt að byggja upp gagnkvæmt traust og skilning milli Rauða krossins og innflytjenda.

„Istanbúl skuldbindingarnar og endurskoðuð stefna Rauða kross Íslands sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 19. maí síðastliðinn eru í fullu samræmi hvort við annað,“ segir Ómar H. Kristmundsson, formaður Rauða kross Íslands í tilkynningu. Hann var í forsvari fyrir íslensku sendinefndina á Evrópuráðstefnunni. „Við munum því vinna innan sama ramma og önnur landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Evrópu.“

Í endurskoðaðri stefnu Rauða kross Íslands felst áhersla á starf með innflytjendum og gegn félagslegri einangrun. Þetta er í samræmi við tvö meginviðfangsefni Evrópuráðstefnunnar, annars vegar heilbrigði í víðasta skilningi þess orðs og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, og hins vegar fólksflutninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert