Mikil óánægja meðal vagnstjóra hjá Strætó bs. um breytingar á vaktakerfi

Vagnstjórar eru afar óánægðir með sjöttu vaktabreytingarnar á síðastliðnum tveimur …
Vagnstjórar eru afar óánægðir með sjöttu vaktabreytingarnar á síðastliðnum tveimur árum Mynd/ÞÖK

Vagnstjórar hjá Strætó bs. eru afar óánægðir með fyrirhugaðar breytingar á vaktakerfi sem ganga í gagnið með breyttu leiðakerfi nú á sunnudag. Gagnrýna vagnstjórar alltof tíðar breytingar, lítið samráð við vagnstjóra og of mikið álag. Að auki benda þeir á að ekki sé verið að hugsa um farþegana því engar tímatöflur hafi enn verið kynntar.

Að sögn Valdimars Jónssonar, fyrsta trúnaðarmanns vagnstjóra hjá Strætó bs., voru breytingar á leiðum kynntar fyrir vagnstjórum á þriðjudaginn síðasta en þær eiga að taka gildi á sunnudaginn. Hann segir að breytingarnar leggist ekki vel í vagnstjóra þar sem nú er verið að setja fram sjötta vaktafyrirkomulagið á tæpum tveimur árum.

Margir vagnstjórar hafa hætt vinnu á síðustu tveimur árum
„Þessi mál eru eiginlega búin að vera í tómu rugli síðan leiðakerfisbreytingin varð 23.júlí 2005, því með hverri leiðakerfisbreytingu síðan þá hafa verið gerðar vaktabreytingar. Við höfum misst mikið af góðum mönnum síðan fyrstu vaktabreytingarnar voru gerðar og þeim mun fjölga sem hætta. Veikindi hafa aukist á þessum tíma því menn eru yfirkeyrðir af því það er mjög algengt að menn keyri 8-10 tíma vaktir og meira. Með nýja vaktafyrirkomulaginu núna á svo að auka helgarvinnu hjá okkur,".

Valdimar segir líka samráð við vagnstjóra um breytingar á vaktakerfinu orðið að engu sem auki á óánægju í röðum vagnstjóra. Hann segir að þeir ætli þó ekki að grípa til neinna aðgerða nú en halda því til streitu að breytingar sem verða aftur þann 19. ágúst nk. verði endanlegar.

Aðspurður um hvort breytingarnar á leiða- og vaktakerfi eigi eftir að draga úr þjónustu við farþega, svarar Valdimar því til að það sé ljóst að ekki er verið að hugsa um fólkið sem ferðist með strætó þegar ekki sé enn búið að gefa út nýjar tímatöflur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert