Ganga á fimm tinda um eina helgi

Hópurinn hefur verið duglegur að æfa sig í vetur, en …
Hópurinn hefur verið duglegur að æfa sig í vetur, en hann ætlar um aðra helgi að ganga á hæstu fjöll í fimm landshlutum.
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is „Við viljum sýna fram á að það er hægt að reyna á sig á annan hátt en að vera í svitabaði á hlaupabretti. Það er líka hægt að vera úti og gera eitthvað skemmtilegt saman," segir Leifur Dam Leifsson, sem er einn áttmenninga sem ætla um aðra helgi að ganga á hæstu tinda í fimm landshlutum.

Hópurinn ætlar sér að ljúka göngunni á einni helgi. Enginn áttmenninganna hafði reynslu af fjallgöngu þegar þeir settu sér þetta markmið, en hafa æft stíft í vetur.

Auk Leifs eru í hópnum Birgir Skúlason, Ívar Þórólfsson, Ívar Magnússon, Stefán Aðalsteinn Drengsson, Kristín Sigríður Arnlaugsdóttir, Magnús Björnsson, Róbert Traustason og Sigurgeir Andrésson.

Tindarnir fimm eru hæstu fjöll í sínum landshlutum. Þeir eru Heiðarhorn á Vesturlandi, sem er 1.053 metra hátt fjall, Kaldbakur á Vestfjörðum, sem er 998 metra hár, Kerling á Norðurlandi, sem er 1.538 metra hátt fjall, Snæfell á Austurlandi, en hæð þess er 1.833 metrar og Hekla, sem er hæsta fjall á Suðurlandi, 1.491 metrar.

Íslandsmet í Esjugöngu

„Við ætlum að leggja af stað eftir að vinnu lýkur á föstudegi og markmiðið er að ljúka þessu þannig að við getum mætt í vinnu kl. 8 á mánudagsmorgni," sagði Leifur.

Leifur sagði að áttmenningarnir hefðu ekki haft neina þjálfun í fjallgöngu þegar þessi ákvörðun var tekin, en hópurinn væri búinn að æfa af miklum krafti í vetur í Boot Camp. „Við reynum að ganga á Esjuna a.m.k. einu sinni viku."

Áætlun hópsins gerir ráð fyrir að gengið verði á fjöllin dag og nótt. Síðan verður sofið í bílnum. Leifur sagðist telja góðar líkur á að hópnum tækist ætlunarverk sitt. „Við munum a.m.k. ekki skilja neinn eftir."

Í tengslum við gönguna stendur hópurinn fyrir landssöfnun til styrktar Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð fyrir langveik og fötluð börn.

Áttmenningarnir láta sér ekki nægja að sigra fimm tinda um aðra helgi. Núna um helgina ætlar hópurinn að stuðla að því að sett verði Íslandsmet í Esjugöngu. Taldir verða þeir sem ganga á fjallið á laugardag frá kl. 8–20. Markmiðið er ekki að allir komist á toppinn, heldur að stuðla að því að fólk fari út í náttúruna og njóti sín í góðra vina hópi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert