Stórkostlegasta berghlaup í áratugi

Skriðan á Morsárjökli.
Skriðan á Morsárjökli. mynd/Jón Viðar Sigurðsson
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
Komið hefur í ljós að gríðarstór skriða sem féll á Morsárjökul í Skaftafellsþjóðgarði, líklega seint í apríl, er stórkostlegasta hamfarahlaup sinnar tegundar í áratugi. Skriðan féll niður á Morsárjökul og myndaði þar stóran skriðuflekk sem sést víða að, meðal annars frá þjóðvegi 1 á Skeiðarársandi.

Þegar Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur heyrði fregn af fyrirbærinu gerði hann út sjálfstæðan könnunarleiðangur og komst þá að því að skriðan var tröllaukin að stærð. „Þarna hafa oltið niður björg sem eru átta metrar á lengdina og fjórir á breidd," segir Jón Viðar. Samkvæmt athugunum hans féllu 5 milljón tonn af bergi niður snarbratta fjallshlíð úr hrygg sem rís inn af Birkidal yfir innsta hluta Morsárjökuls. Féll skriðan á skriðjökulinn og hefur myndað veglega tungu ofan á jöklinum.

Lengd skriðunnar reyndist vera 1,4 km og breiddin að jafnaði um 540 metrar. Jón Viðar segir að skriðan hafi augljóslega fallið á ógnarhraða niður hlíðina, um 200-400 hæðarmetra uns hún skall á jöklinum og hélt för sinni áfram eftir honum. Skriðan endar í 460 metra hæð en hefur fallið á jökulinn í 620 metra hæð. Neðsti endi skriðunnar er nærri 2 km frá brotsárinu.

„Þetta er því gríðarlega stór skriða og merkur viðburður út frá jarðfræðilegu sjónarhorni," segir Jón Viðar. "Þetta er með stærri skriðum sem við þekkjum á seinni árum og líklega sú stærsta sinnar gerðar síðan Steinholtshlaupið varð árið 1967. „Á það má benda að enginn sem ekur inn í Þórsmörk fer varhluta af gríðarstórum björgum á Markarfljótsaurum sem köstuðust fram í Steinholtshlaupinu.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert