Grænlendingar fá aukinn hvalveiðikvóta

Ole Samsing, formaður dönsku sendinefndarinnar á fundi hvalveiðiráðsins.
Ole Samsing, formaður dönsku sendinefndarinnar á fundi hvalveiðiráðsins. AP

Samþykkt var á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í kvöld að auka svonefndan frumbyggjaveiðikvóta Grænlendinga. Samþykkt var með 41 atkvæði gegn 11 að Grænlendingar fái að veiða 200 hrefnur og 19 langreyðar á ári. Er það 25 hrefnum og 9 langreyðum meira en Grænlendingar hafa fengið að veiða til þessa á ári. Danir, sem fara með málefni Grænlands í hvalveiðiráðinu, féllu frá tillögu um að Grænlendingar fengju að veiða 2 hnúfubaka.

Sextán þjóðir sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. 3/4 atkvæða á fundinum þurfti til að tillagan teldist samþykkt. Samkvæmt tillögunni fá Grænlendingar einnig að veiða tvo Grænlandssléttbaka þegar vísindanefnd hvalveiðiráðsins hefur farið yfir upplýsingar um ástand þess stofns, en það verður væntanlega ekki fyrr en 2009.

Umhverfisverndarsinnar lýstu mikilli óánægju með úrslitin og sögðu, að eftirlit Grænlendinga með þessum veiðum væri slakt, þeir stæðu ekki skil á gögnum og öðrum upplýsingum og tryggðu ekki, að hvalaafurðirnar væru aðeins nýttar á svæðum frumbyggja.

Grænlendingar sögðust hins vegar þurfa á auknu kjöti að halda, allt að 730 tonnum á ári, vegna þess að þjóðinni fjölgaði ört.

Meðal þeirra þjóða sem studdu tillöguna voru Bretar, Bandaríkjamenn og Hollendingar. Mónakó, Þýskaland Frakkland, Ástralía og Nýja-Sjáland greiddu atkvæði gegn tillögunni. Suður-Ameríkuríki sátu hjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert