Ólafur Þ. Stephensen ráðinn ritstjóri Blaðsins

Ólafur Þ. Stephensen.
Ólafur Þ. Stephensen.

Ólafur Þ. Stephensen hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins frá og með næstu mánaðamótum. Hann hefur verið aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins frá árinu 2001 og starfað sem blaðamaður í tæp 20 ár. Segir í tilkynningu að ráðning Ólafs marki upphaf að nýrri sókn Blaðsins á dagblaðamarkaði þar sem Árvakur, útgáfufélag blaðanna tveggja, hafi sett sér að gera Blaðið að mest lesna dagblaði á Íslandi.

Trausti Hafliðason, hefur verið ritstjóri Blaðsins frá því í desember síðastliðnum. Hann á í viðræðum við Árvakur um að fara til annarra trúnaðarstarfa á vegum félagsins. Hann mun þó starfa við hlið Ólafs á Blaðinu út júní.

Í tilkynningu frá Árvakri segir síðan:

„Ólafur Þ. Stephensen sagði í dag að markmiðasetning Árvakurs markaði þáttaskil í rekstri Blaðsins. „Við dreifum Blaðinu í dag í 100 þúsund eintökum og Blaðið hefur þegar náð góðri fótfestu á blaðamarkaðnum. Við erum að undirbúa breytingar á efnisvali og efnistökum sem við ætlum að muni vekja athygli og auka lesturinn enn.“

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, sagði í dag að unnið hefði verið að því undanfarna mánuði að breyta félaginu, sem lengst af var útgáfufélag Morgunblaðsins eingöngu. „Við höfum gert Árvakur að alhliða miðlunarfyrirtæki og sett okkur skýr markmið um vöxt allra miðla samstæðunnar. Við höfum sett það markmið að Blaðið verði mest lesna fríblað á Íslandi, að Morgunblaðið festi sig í sessi sem stærsta og mest lesna áskriftarblaðið og að mbl.is styrki stöðu sína enn sem langstærsti frétta- og afþreyingarmiðillinn á netinu. Við fylgjum þessari markmiðasetningu eftir með vinnuáætlun til næstu þriggja ára. Ráðning nýs ritstjóra að Blaðinu nú er liður í þeirri áætlun.“

Ólafur Þ. Stephensen er stjórnmálafræðingur að mennt með MSc-gráðu frá London School of Economics and Political Science. Hann kom fyrst til starfa hjá Árvakri árið 1987 sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Þar starfaði hann m.a. bæði í innlendum og erlendum fréttum og sem leiðarahöfundur. Ólafur var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Símanum 1998-2000 og forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins 2000-2001, en sneri þá aftur á Morgunblaðið.

Árvakur hf. hóf þátttöku í fríblaðaútgáfu haustið 2005 þegar félagið keypti helming hlutafjár í Ári og degi ehf., útgáfufélagi Blaðsins. Árvakur keypti síðan allt hlutafé fyrirtækisins í síðasta mánuði. Blaðið hefur frá upphafi verið prentað í prentsmiðju Árvakurs og frá því í september í fyrra dreift með dagblaðadreifikerfi Árvakurs."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert