Veiðimenn bjartsýnir á laxveiðina í sumar

Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is
Laxveiðin hefur undanfarin ár hafist 1. júní og hefur þá athygli fjölmiðlanna einkum beinst að opnun Norðurár í Borgarfirði, þar sem stjórnarmenn í SVFR kasta flugum sínum fyrstir. Eftir aflabrest í opnuninni síðustu ár var ákveðið að seinka opnun Norðurár um fimm daga, auk þess sem veiðimenn verða skyldaðir til að sleppa tveggja ára laxi. Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, og félagar hans hefja því veiðar á morgun, þriðjudag, á sama tíma og veiðin hefst á neðstu svæðum Blöndu.

Straumarnir, ármót Norðurár og Hvítár, eru því eina svæðið þar sem laxveiði hófst 1. júní að þessu sinni. Fyrstu vaktirnar höfðu þó ekki gefið neina fiska.

Bjarni var staddur í veiðihúsinu við Norðurá á laugardag og það var kominn veiðihugur í hann.

"Það er þokkalegt rennsli í ánni, en það er spáð úrkomu og svo er stórstreymt nú um helgina þannig að öll skilyrði ættu að vera býsna fín á þriðjudaginn. Ég er ofboðslega bjartsýnn og ætla því að halda því fram að þetta verði með betri opnunum – um 20 laxar veiðist!"

Orri spáir 45.000 löxum

Í fyrrasumar veiddust rúmlega 45.100 laxar á stöng á landinu, en það var samdráttur um 18% frá árinu 2005. Þá var metveiði á laxi, 55.168 fiskar. Á ársfundi veiðimálastofnunar í vor spáði Guðni Guðbergsson fiskifræðingur í veiðihorfurnar í sumar og sagði engin merki um annað en veiðin yrði yfir meðaltali eins og undanfarin ár. Þó gerði hann ráð fyrir einhverri fækkun.

Guðni var þá svartsýnn á framtíð stórlaxins í íslensku ánum; spáði því að að ef sama þróun héldi áfram yrði síðasti stórlaxinn drepinn árið 2.020. Ítrekaði hann fyrri tilmæli Veiðimálastofnunar um að stórlaxinum verði hlíft og veiddum fiskum sleppt til að auka kyn sitt.

Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, hefur á liðnum árum gert sína spá um laxveiðina og hefur oft verið nærri lagi.

"Ég spái 45.000 laxa veiði," segir hann að þessu sinni – og gerir þar með ráð fyrir svipuðum afla og í fyrra.

"Ég held það verði einhver aukning í hafbeitinni en hitt verði svipað.

Ég á ekki von á allt of mikilli veiði fyrir norðan," sagði hann.

Laxinn kemur með flóðinu

Stefán Sigurðsson, sölustjóri hjá Lax-á, er á leið í Blöndu og verður einn veiðimannanna sem opna ána. Hann sagðist vissulega vera orðinn spenntur. Menn nyrðra kíktu í Blöndu fyrir helgi og sáu ekki fisk en Stefán sagði það ekki að marka. "Áin felur laxana vel og svo er stórstreymt um helgina og laxinn kemur þá inn með flóðinu."

Hann neitaði því ekki að það yrði kapphlaup við stjórn SVFR, sem hæfi veiðar í Norðurá á sama tíma, hvorum gengi betur.

Hann sagðist vera bjartsýnn hvað varðar veiðina í sumar. "Ég held það gangi mjög vel í Rangánum, enda var miklu magni af seiðum sleppt í árnar. Ég á von á svipaðri veiði í þeim og í fyrra, jafnvel meiri.

Af öðrum ám hjá okkur verður Miðfjarðará á góðu róli, enda sterkir seiðaárgangar í henni. Ég á von á að Blanda standi sína plikt, gefi milli 1.100 og 1.600 laxa. Hún gefur sitt.

Ég er bjartsýnn að upplagi og hef trú á því að sumarið verði aðeins betra en í meðalári – hugsa að það verði svipað og í fyrra."

Bjarni Júlíusson var á sama máli varðandi veiðihorfurnar í sumar.

"Ég hlusta alltaf á fiskifræðingana og þeir hafa verið býsna sannspáir síðustu ár. Ég held það verði fín veiði. Ekki metaflaár en góð meðalveiði. Síðan mun veðráttan spila stóra rullu."

Lax mættur í Haffjarðará

Einar Sigfússon, leigutaki Haffjarðarár, sá fyrstu laxana í ánni um miðja vikuna. "Þeir voru við gömlu brúna eins og svo oft áður á sama tíma," sagði Einar. "Í fyrra voru þeir þó komnir viku fyrr, en það var undantekning."

Hann er einnig bjartsýnn á sumarið, heldur að veiðin verði ágæt, í líkingu við veiðina í fyrra.

Viðmælendur höfðu á orði að afar lítið vatn væri í mörgum laxveiðiánna núna, eftir þurran og kaldan maímánuð. Sumsstaðar er vatnsmagn í ánum eins og eftir langvarandi síðsumarsþurrka. Ef vatnið er lítið gengur oft illa að fá laxinn til að taka. Það getur þó breyst snarlega með auknum hlýindum, rigningu og snjóbráð inn til fjalla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert