Fékk blóðtappa í lungu vegna Yasmin

Yasmin er í hópi nýrrar gerðar getnaðarvarnapilla, sem kenndar eru …
Yasmin er í hópi nýrrar gerðar getnaðarvarnapilla, sem kenndar eru við 3. kynslóðina. Kristinn Ingvarsson

Ung, íslensk kona telur Yasmin getnaðarvarnarpilluna eiga sök á blóðtappa og drepi í báðum lungum sem hún fékk í febrúar síðastliðinn. Sonja Björg Fransdóttir, sem er aðeins 24 ára gömul, vill vara ungar konur við notkun pillunnar.

Í samtali við blaðamann Fréttavefjar Morgunblaðsins sagðist Sonja Björg hafa notað Yasmin pilluna í eitt og hálft ár áður en hún fór að kenna sér meins. Hún hafi áður fengið getnaðarvarnarsprautuna, en ákveðið að skipta eftir að mælt hafði verið með Yasmin við hana. Var henni sagt að í Yasmin pillunni væri minna magn hormóna og hún hefði því minni áhrif á skapsveiflur og þyngdaraukningu. Hún hafi í kjölfarið óskað eftir því við heimilislækni sinn að skipta um getnaðarvörn.

Í upphafi virkaði nýja pillan vel, en í febrúar á þessu ári fór Sonja að finna fyrir einkennum blóðtappa. Við rannsókn kom í ljós blóðtappi og drep í báðum lungum. Hún lá inni á spítala í fjóra daga, en finnur ennþá fyrir venjubundnum eftirköstum svo sem verkjum við ofreynslu og mæði. Þá er hún enn háð blóðþynnandi lyfi.

Að loknum rannsóknum voru erfðatengdir þættir útilokaðir og þótti ljóst að það hafði verið getnaðarvarnarpillan sem olli blóðtappanum. Það var þó ekki fyrr en Sonja Björg sá frétt á um Yasmin Fréttavef Morgunblaðsins í gær að hún ákvað að vekja athygli á sögu sinni. Hún hyggst hafa samband við landlækni, enda þyki henni ljóst að atvikið hafi ekki verið tilkynnt sem skyldi til viðeigandi stofnana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert