Þrír laxar úr Norðurá í morgun og einn úr Blöndu

Fyrsta laxi sumarsins var landað í Norðurá 21 mínútu yfir sjö í morgun. Það var Bjarni Júlíusson formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem samkvæmt hefðinni hóf veiðar fyrstur á veiðistaðnum Brotinu og ellefu mínútum síðar tók laxinn svarta túpuflugu, Black Eyed Prawn.

Um fjörutíu ára skeið hefur stjórn SVFR riðið á vaðið í Norðurá og síðastliðna áratugi hefur veiðin hafist 1. júní. Síðustu þrjú ár hefur verið afar tregt í opnuninni, þrír laxar náðust í fyrra og enginn árið áður, og var því ákveðið að seinka opnun árinnar nú um fimm daga. Þá var sú breyting gerð að bannað er að veiða á maðk í ánni og bannað að drepa lax sem hefur verið tvö ár í hafi.

Bjarni tók varlega á laxinum og eftir 10 mínútur aðstoðuðu félagar úr stjórninni hann við að landa fiskinum og mæla. Reyndist þetta vera nýgengin hrygna, 74 cm löng. Var henni sleppt aftur út í ána eins og nú er skylt að gera við tveggja ára fiska í Norðurá.

Var formaðurinn að vonum ánægður með þess góðu byrjun á veiðisumrinu, en hann hefur farið fisklaus úr opnun Norðurár síðustu tvö sumur.

Nokkrum mínútum síðar veiddi Þorsteinn Ólafs annan laxinn á Stokkhylsbroti, 82 cm langa hrygnu. Nokkru síðar fékk Loftur Atli Eiríksson um níu punda hæng, 76 cm, á Efstu-Bryggju.

Um níuleytið í morgun veiddi hin kunna aflakló Þórarinn Sigþórsson tannlæknir síðan fyrsta lax sumarsins í Blöndu, og vó hann 11 pund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert