Vilja auðvelda starfsfólki á leikskólum að ljúka fagnámi

Frá leikskólanum Steinahlíð
Frá leikskólanum Steinahlíð mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Starfshópur um fjölgun fagfólks á leikskólum leggur m.a. til að leikskólastarfsmönnum með stúdentspróf verði gert auðveldara að ljúka fjarnámi í leikskólafræðum samhliða starfi. Þeir sem starfað hafa í eitt ár eða lengur í leikskólum borgarinnar eiga samkvæmt tillögum hópsins að geta sótt um að stunda fjarnám í leikskólafræðum með starfi án launaskerðingar meðan á námslotum stendur. Einnig er lagt til að starfsmenn með langa starfsreynslu verði hvattir til að ljúka námi sem leikskólaliðar og að leitað verði eftir því við K.H.Í. að taka upp að nýju 45 eininga diplómanám. Þetta kemur fram í tillögum sem starfshópurinn sem Leikskólaráð Reykjavíkurborgar stofnaði í október 2006 hefur skilað til leikskólaráðs.

Starfsmannaveltan 25,8%
Í skýrslunni koma fram ýmsar upplýsingar um þá ólíku starfshópa sem vinna í leikskólum borgarinnar, auk tölfræði um fjölda fagfólks starfandi í leikskólum (42,3%). Einnig voru í fyrsta skipti greindar tölur um starfsmannaveltu en hún var á síðasta ári 25,8%.

Starfshópurinn lét vinna fyrir sig greiningu byggða á viðtölum við leikskólastjóra um hvernig draga mætti úr starfsmannaveltu. Í ljós kom að þeir leikskólastjórar sem styðjast við aðferðir þátttökustjórnunar, deila ábyrgð og stuðla að þróunarverkefnum upplifa minna álag og starfsmannaveltu. Könnunin leiddi einnig í ljós að leikskólastjórar telja gott skipulag, þróunarverkefni af ýmsum toga og áherslu á endurmenntun skipta miklu máli í þeirri viðleitni að halda fólki í starfi.

Leikskólaráð samþykkti í kjölfar umræðna um skýrsluna aðgerðir til að styðja við leikskólastjóra strax í haust sem m.a. fela í sér að halda stjórnendanámskeið fyrir þá og fjölga atvinnuauglýsingum sem endurspegla hugmyndafræði hvers leikskóla fyrir sig. Skýrsla starfshópsins verður lögð fyrir borgarráð fimmtudaginn 7. júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert