Alcoa verði fyrir fjárhagslegum skaða vegna tafa

Stefnir tafir á afhendingu orku frá Kárahnjúkavirkjun.
Stefnir tafir á afhendingu orku frá Kárahnjúkavirkjun. Rax Ragnar Axelsson

Alcoa fjarðaál mun verða fyrir töluverðum fjárhagslegum skaða vegna tafa á afhendingu orku frá Kárahnjúkavirkjun, enda tefst afhending orkunnar um að minnsta kosti 6 mánuði.

Alcoa gæti því krafið Landsvirkjun um skaðabætur vegna framleiðslutaps. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Í dæmi sem samtökin setja upp kemur fram að ef fjögurra mánaða töf verður á afhendingu orkunnar þá muni álverið tapa 2 milljörðum króna vegna tafanna, sé miðað við 10% framlegð. Sé miðað við algenga framlegð álvera, um 30%, nemi tapið hins vegar 6,1 milljörðum króna. Ef gert er ráð fyrir því að Landsvirkjun greiði skaðabætur vegna tafanna er eðlilegast að miða við tapaða framlegð.

Samkvæmt endurskoðuðu arðsemismati Landsvirkjunar er núvirði Kárahnjúkavirkjunar 4,4 milljarðar króna.

Sé miðað við að árlegar tekjur af orkusölu til Alcoa nemi 5 milljörðum króna, tapast 1,7 milljarðar vegna tafa á orkuafhendingu. Samkvæmt áætlun átti verkið að taka 54 mánuði. Miðað við hlutfallsreikning leiðir þriggja mánaða töf á verklokum til þess í stað þess að kostnaður verði um 115 milljarðar króna verði hann 121,4 milljarðar.

Heildartap Landsvirkjunar, sem felst í skaðabótum, tapaðri orkusölu og auknum framkvæmdakostnaði gæti því numið á bilinu 10,1 – 16,2 milljörðum króna. Þetta merkir að miðað við meðalarðsemiskröfu Landsvirkjunar er virði virkjunarinnar neikvætt um 5,7 – 11,8 milljarða króna. Ef litið er til arðsemiskröfu á markaði er virði virkjunarinnar neikvætt um 50 - 56 milljarða króna að teknu tilliti til skaða vegna tafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert